Ræddu um ráðuneytin í gær

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bjarni Benediktsson.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bjarni Benediktsson. Ljósmynd/Svanhildur Hólm

Formenn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins vörðu stærstum hluta dagsins í gær í að fara yfir verksvið ráðuneytanna og hvernig það hefði þróast á undanförnum árum. Þetta sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, í samtali við Ríkisútvarpið í hádeginu.

Spurður hvort hann og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, væru farnir að ræða skiptingu ráðuneyta á milli flokkanna vegna fyrirhugaðs stjórnarsamstarfs sagði Sigmundur svo ekki vera. Hann var einnig spurður að því hvort hann yrði næsti forsætisráðherra og sagði hann rétt að bíða og sjá hver niðurstaðan yrði í þeim efnum.

Sigmundur hafnaði því ennfremur að ummæli hans um að staða ríkissjóðs væri verri en rætt hafi verið um í aðdraganda kosninga væru hugsuð til þess að reyna að komast hjá því að þurfa að standa við kosningaloforð Framsóknarflokksins. Staðan væri miklu fremur frekari rök fyrir því að koma þyrfti á breyttum vinnubrögðum í ríkisfjármálum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert