Rukkuð um aukalyklana

Sigurður Ingi Jóhannsson fær lyklavöldin hjá Svandísi Svavarsdóttur
Sigurður Ingi Jóhannsson fær lyklavöldin hjá Svandísi Svavarsdóttur mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rétt áður en Svandís Svavarsdóttir gekk út úr umhverfisráðuneytinu í morgun, eftir að hafa afhent Sigurði Inga Jóhannssyni lyklavöldin, hnippti Skúli Oddsson bílstjóri í hana og rukkaði um aukalyklana að ráðherrabílnum sem hún hafði gleymt að láta af hendi. Þá fann hún í veskinu eftir stutta leit.

Að hennar mati var þó bílstjóri ekki fullnægjandi starftitill fyrir Skúla. Hann væri aðstoðarráðherra og einnig pólítískur og andlegur ráðgjafi á erfiðum stundum.

Landnýting og verndun lands sem auðlindar  

Sigurður Ingi Jóhannsson, nýbakaður umhverfisráðherra, sagði í samtali við Morgunblaðið í morgun að ráðuneytið myndi starfa áfram í algjörlega óbreyttri mynd. Þar verði áfram ráðuneytisstjóri o.s.frv. Aðspurður sagði hann að það færi mjög mjög vel saman að vera ráðherra umhverfismála um leið og gegnir embætti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. „Landnýting og verndun landsins sem auðlindar er auðvitað umhverfismál í sjálfu sér, um leið og það er atvinnumál,“ sagði hann.

Málaflokkur sem ekki verður rekinn í hjáverkum

Svandís er þessu algjörlega ósammála. „Umhverfismálin eru mjög mikilvægur málaflokkur og hann verður ekki rekinn í hjáverkum,“ sagði hún. Þessi ákvörðun endurspeglaði að umhverfismál hefðu verið sett til hliðar sem hjáverk en það kæmi svo í ljós hvernig þessum málum myndi vinda fram. Það væri þó gott að ekki hætti að hrófla við ráðuneytinu, gagnstætt því sem áður hefði legið í loftinu. „Því það er afar mikilvægt að náttúrvernd, umhverfismál og sjálfbærni séu í skjóli frá nýtingu. Þegar þessi sjónarmið togast á þarf einhver að taka sjálfbærnivaktina. Það þarf sterk bein í það og þau bein þurfa að vera studd með skynsamlegri uppbyggingu stjórnarráðsins,“ sagði hún. Raddir nýtingar væru alltaf háværari en raddir verndurnar.

Fornaldarleg umræða um ráðuneytið

Í september 2012 voru þrjú ráðuneyti sameinuðu í atvinnuvegaráðuneytið; efnahags- og viðskiptaráðuneyti, iðnaðarráðuneyti og sjávarútvegs og landbúnaðarráðuneyti.

Svandís sagði að núverandi skipan umhverfismála, undir sama ráðherra og stýrir sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum, væri ekki sambærileg við sameiningu þessara ráðuneyta. „Það er gjörólíkt mál. Þar erum við tala um atvinnuvegina alla saman en hér erum við að tala um utanumhald um auðlindirnar,“ sagði hún. Umhverfisráðuneytinu væri ætlað að styrkja viðmið um sjálfbærni sem allir atvinnuvegir yrðu að taka tillit til. Þetta hefði verið hugsunin með ráðuneytinu frá byrjun, frá því að Steingrímur Hermannsson mælti á sínum tíma fyrir stofnun umhverfisráðuneytisins. Sú ákvörðun að blanda verkefnum tengd nýtingu saman við verkefni umhverfisráðuneytisins væri „fornaldarlegri en nokkurn tíma hefur sést í umræðu um ráðuneytið sem slíkt,“ sagði Svandís.

Lyklakippan í umhverfisráðuneytinu
Lyklakippan í umhverfisráðuneytinu Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert