Sigríður aðstoðar Illuga

Sigríður Hallgrímsdóttir
Sigríður Hallgrímsdóttir

Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra hefur ráðið Sigríði Hallgrímsdóttur sem aðstoðarmann sinn.

Sigríður er með MBA-gráðu frá Háskólanum í Reykjavík og hefur undanfarið starfað sem ráðgjafi hjá almannatengslafyrirtækinu KOM. Hún hefur m.a. starfað sem framkvæmdastjóri hjá SJÁ ehf., sem aðstoðarframkvæmdastjóri hjá Creditinfo Group og aðstoðarframkvæmdastjóri Industria ehf. Þá hefur hún bæði tekið þátt í stofnun og setið í stjórn nokkurra fyrirtækja.

Sigríður er varaformaður Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga og hefur tekið virkan þátt í félagsstarfi Sjálfstæðisflokksins. Hún er formaður Hvatar, félags sjálfstæðiskvenna í Reykjavík, var formaður Upplýsinga- og fræðslunefndar Sjálfstæðisflokksins, sat í miðstjórn og var um skeið varaformaður Landssambands sjálfstæðiskvenna.

Auk þess situr Sigríður í stjórn Vinafélags Sinfóníuhljómsveitar Íslands, sem og í stjórn Áslaugarsjóðs, styrktarstofnunar Sinfóníuhljómsveitarinnar og um skeið sat hún í stjórn Íslenska dansflokksins. Sigríður er jafnframt formaður jafnréttisnefndar Bandalags kvenna í Reykjavík.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert