Sækist eftir 1.-2. sæti í Hafnarfirði

Margrét Gauja Magnúsdóttir.
Margrét Gauja Magnúsdóttir.

Margrét Gauja Magnúsdóttir, bæjarfulltrúi í Hafnarfirði, sækist eftir stuðningi í 1.-2. sæti lista Samfylkingarinnar fyrir sveitarstjórnarkosningarnar sem fram fara í vor, en hún gefur kost á sér í flokksvali Samfylkingarinnar sem verður haldið dagana 6.-9. febrúar nk. 

Margrét Gauja segir í tilkynningu, að hún hafi brennandi áhuga á Hafnarfjarðarbæ, kraft til að koma hlutum í verk og þá trú að alltaf megi gera góðan bæ betri.

Hún er með BA próf í Uppeldis, menntunar og atvinnulífræðum og er með kennsluréttindi. Hún er gift Davíð Arnari Stefánssyni landfræðingi og þau eiga þrjú börn.

„Með þátttöku minni í bæjarmálunum á undanförnum árum hef ég öðlast dýrmæta reynslu og þekkingu sem ég vil nýta til áframhaldandi starfa í þágu bæjarbúa. Ég hef látið til mín taka á fjölmörgum sviðum, meðal annars í umhverfis- og framkvæmdamálum þar sem ég hef verið í fararbroddi mikilvægra breytinga. Þar höfum við stigið stór skref í átt til umhverfisvænna og betra samfélags. Með eflingu innanbæjaraksturs Strætó, bættum aðstæðum fyrir hjólreiðafólk og innleiðingu á almennri flokkun heimilissorps höfum við í sameiningu tekið mörg góð skref að nútímalegra samfélagi. 

Uppbygging í þágu fjölskyldna

Fjölskyldumál í Hafnarfirði eru mér hugleikin. Á undanförnum árum hefur þurft að bregðast við alvarlegum afleiðingum efnahagshruns sem hafði áhrif allstaðar í samfélaginu,  á heimilin og sveitarfélögin ekki síst. Með samstilltu átaki og breiðri samstöðu hefur náðst jafnvægi í rekstri bæjarins um leið og lagður hefur verið grunnur að nauðsynlegri uppbyggingu á fjölmörgum sviðum.  Í mínum huga er það lykilatriði að í þeirri uppbyggingu verði forgangsraðað í þágu þeirra verkefna sem mestu máli skipta fyrir okkar samfélag, í þágu barna, unglinga og þeirra fjölskyldna sem mestrar byrðar bera.

Stjórnmál eru samvinna

Frá því að ég hóf mína stjórnmálaþáttöku hef ég einsett mér að starfa heiðarlega og af metnaði fyrir bæjarbúa. Ég hef lagt mig fram um að vinna með fólki úr öllum flokkum, bera virðingu fyrir ólíkum sjónarmiðum og fólki almennt.  Það er einlæg skoðun mín að þannig náist bestur og mestur árangur fyrir bæjarbúa, með samvinnu og virku samtali fólks úr ólíkum flokkum,“ segir Margrét í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert