Sóley vill leiða lista VG í Reykjavík

Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna í Reykjavík.
Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna í Reykjavík.

Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna í Reykjavík, býður sig fram til að leiða áfram lista Vinstri grænna í borgarstjórn á næsta kjörtímabili. Sóley hefur tarfað á vettvangi borgarstjórnar frá árinu 2006 og verið oddviti flokksins frá 2010.

„Á þessum tíma hef ég öðlast dýrmæta reynslu sem getur komið samfélaginu til góða,“ segir Sóley í tilkynningu.

„Á kjörtímabilinu sem nú er að ljúka hef ég lagt ríka áherslu á sanngirni sem borgarfulltrúi í minnihluta. Ég hef starfað af heilindum með öðrum borgarfulltrúum að þeim málum sem samrýmast stefnu Vinstri grænna en veitt harða mótspyrnu í öðrum málum. Aðalskipulag, atvinnu- og húsnæðisstefna borgarinnar eru dæmi um stefnumörkun sem hafa Vinstri grænni áherslur fyrir vikið. Dæmi um óráðlegar aðgerðir sem Vinstri græn töluðu gegn eru sameiningar leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila sem fóru fram á kjörtímabilinu í óþökk skólasamfélagsins og foreldra og setja enn mark sitt á skólastarf í borginni.“

„Á næsta kjörtímabili verður að vinna áætlun um gjaldfrelsi fyrir grunnþjónustu við börn. Það er einkennileg hugmyndafræði að rukka barnafjölskyldur um tugi og jafnvel hundruði þúsunda á hverjum mánuði umfram útsvarið fyrir jafn sjálfsagða þjónustu og leikskóla og skólamáltíðir. Nauðsynlegt er að endurskoða ágenga nýtingu Orkuveitunnar á Hengilssvæðinu og beina orkuframleiðslu fyrirtækisins í átt frá löngu úreltri stóriðjustefnu. Þá er brýnt að endurskoða velferðarþjónustu borgarinnar frá grunni og tryggja að allir borgarbúar geti lifað með reisn. Þetta er ekki tæmandi listi, verkefni næsta kjörtímabils mörg og krefjandi.“

„Stefna og hugmyndafræði Vinstri grænna er róttæk, kjörkuð og framsækin og til þess fallin að byggja betra samfélag. Það yrði mér sannur heiður að halda áfram að vinna með félögum mínum að því að tryggja sjónarmið Vinstri grænna við stjórn og rekstur borgarinnar,“ segir í tilkynningu Sóleyjar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert