Listi fólksins og Bæjarlistinn sameinast

Frá Akureyri.
Frá Akureyri. mbl.is/Skapti

Ákveðið hefur verið að L-listinn, Listi fólksins, og Bæjarlistinn á Akureyri sameinist og bjóði fram einn sameiginlegan lista í bæjarstjórnarkosningunum 31. maí n.k. Boðið verður fram undir nafninu L-listinn, bæjarlisti Akureyrar. Listabókstafurinn verður L.

Að nýjum framboðslista stendur stór og fjölbreyttur hópur fólks víða að úr samfélaginu, að því er segir í tilkynningu. Þá segir að frambjóðendur verði kynntir á næstu dögum sem og megináherslur framboðsins.

„Í síðustu bæjarstjórnarkosningum fékk L-listinn sex fulltrúa kjörna (hreinan meirihluta) og Bæjarlistinn einn.

Viðræður um sameiningu hófust fyrir nokkru en endanleg ákvörðun var tekin mánudaginn 7. apríl. Oddvitar listanna kjörtímabilið 2010-2014, Geir Kr. Aðalsteinsson L-lista og Sigurður Guðmundsson Bæjarlistanum, segjast  ánægðir með niðurstöðuna,“ segir í tilkynningu.

„L-listinn og Bæjarlistinn eru um margt svipuð framboð og hafa bæði það meginmarkmið að stuðla að hagsmunum og framgangi Akureyrar og bæjarbúa en vera um leið óháð landsmálapólitík. Að baki okkur er stór hópur fólks sem hlakkar til að vinna áfram að bæjarmálunum næstu árin, reynslunni ríkara eftir viðburðaríkt kjörtímabil,“ segir Geir Kr. Aðalsteinsson í tilkynningunni.

„Bæjarlistinn var nýtt framboð í síðustu kosningunum og hefur starfið í bæjarstjórn verið ánægjulegt. Frá upphafi höfum við átt gott samstarf við L-listann sem hefur styrkst eftir því sem liðið hefur á kjörtímabilið. Traust hefur ríkt á milli okkar og ágreiningur um einstök mál ekki haft áhrif þar á. Í mínum huga hefur sameining framboðanna verið rökrétt skref um nokkurt skeið,“ segir Sigurður Guðmundsson.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert