Fimm af sex bæjarfulltrúm L-listans hætta

Frá sigurhátíð L-listans fyrir fjórum árum. Allir sex bæjarfulltrúarnir á …
Frá sigurhátíð L-listans fyrir fjórum árum. Allir sex bæjarfulltrúarnir á sviði, fremstur oddvitinn Geir Kristinn Aðalsteinsson. Fimm af þessum sex hætta í vor. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Geir Kristinn Aðalsteinsson, forseti bæjarstjórnar á Akureyri, hefur ákveðið að draga sig í hlé eftir kosningarnar í vor. Þar með er ljóst að a.m.k. sjö af ellefu bæjarfulltrúum á kjörtímabilnu hverfa á braut í vor, þar af fimm af sex L-listamönnum sem skipað hafa meirihluta frá síðustu kosningum.

Geir Kristinn var í gærkvöldi kjörinn formaður Íþróttabandalags Akureyrar. Þar kom fram í máli núverandi forseta bæjarstjórnar að hann teldi það ekki fara saman að vera formaður ÍBA og bæjarfulltrúi en ekki væri hætta á hagsmunaárekstrum vegna þess að hann drægi sig úr framlínu bæjarmálanna eftir kosningarnar í vor.

Listi fólksins vann sögulegan sigur fyrir fjórum árum: fékk hreinan meirihluta, sex bæjarfulltrúa af ellefu; nokkuð sem engu framboði í sögu bæjarins hafði áður tekist. Fimm þeirra hafa nú tilkynnt að þeir hætti í vor.  Þetta eru Oddur Helgi Halldórsson, stofnandi Lista fólksins og bæjarfulltrúi til tæplega 20 ára, Geir Kristinn, Halla Björk Reynisdóttir formaður bæjarráðs, Hlín Bolladóttir og  Inda Björk Gunnarsdóttir. Ekki er vitað hvort sá sjötti, Tryggvi Gunnarsson, hyggst gefa kost á sér áfram.

Þá hætta Ólafur Jónsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og Andrea Sigrún Hjálmsdóttir,sem situr í bæjarstjórn fyrir Vinstri hreyfinguna - grænt framboð. Hvorugt gaf kost á sér áfram.

L-listinn og Bæjarlistinn í eina sæng

Þau tíðindi urðu í vikunni að Listi fólksins og Bæjarlistinn tilkynntu að þeir byðu sameiginlega fram til bæjarstjórnar í vor. Bæjarlistinn hefur átt einn bæjarfulltrúa á kjörtímabilinu, Sigurð Guðmundsson. L-listinn mældist með lítið fylgi í könnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands fyrir Morgunblaðið í lok febrúar og fengi skv. henni aðeins einn mann kjörinn. Skv. sömu könnun missti Bæjarlistann eina bæjarfulltrúa sinn.

Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri, til vinstri, og L-listamennirnir Oddur Helgi …
Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri, til vinstri, og L-listamennirnir Oddur Helgi Halldórsson og Geir Kristinn Aðalsteinsson, forseti bæjarstjórnar. mbl.is/Skapti
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert