Samfylking bætir við sig í borginni

Borgarstjórn Reykjavíkur.
Borgarstjórn Reykjavíkur. mbl.is/Árni Sæberg

Helstu breytingar á fylgi flokka í Reykjavík frá síðustu könnun þjóðarpúls Gallups eru þær að Samfylkingin bætir við sig fjórum prósentustigum milli mælinga. Sjálfstæðisflokkurinn og Björt framtíð bæta við sig tveimur prósentustigum hvor flokkur. Á sama tíma tapa Píratar og Vinstrihreyfingin - grænt framboð þremur prósentustigum hvor flokkur.

Ef kosið yrði til borgarstjórnar nú segjast tæplega 28% myndu kjósa Samfylkinguna, ríflega 25% Sjálfstæðisflokkinn og rúmlega 24% Bjarta framtíð. Ríflega 10% myndu kjósa Pírata, tæplega 7% Vinstrihreyfinguna - grænt framboð, 3% myndu kjósa Framsóknarflokkinn og tæplega 3% Dögun færu borgarstjórnarkosningar fram núna. Rúmlega 13% svarenda taka ekki afstöðu eða neita að gefa hana upp og ríflega 9% segjast myndu skila auðu eða ekki kjósa ef borgarstjórnarkosningar færu fram í dag. Ef borgarfulltrúum er skipt milli flokka út frá niðurstöðum könnunarinnar fengi Samfylkingin fimm borgarfulltrúa, Sjálfstæðisflokkurinn og Björt framtíð fjóra borgarfulltrúa hvor og Píratar og Vinstrihreyfingin - grænt framboð fengju sinn borgarfulltrúann hvor.

Spurt var: Ef kosið yrði til borgarstjórnar í dag hvaða flokk eða lista myndir þú kjósa? En hvaða flokk eða lista er líklegast að þú myndir kjósa? Hvort er líklegra að þú kysir Sjálfstæðisflokkinn eða einhvern hinna flokkanna?

Niðurstöður sem hér birtast um fylgi flokka ef kosið yrði til borgarstjórnar eru úr netkönnun sem Capacent Gallup gerði dagana 19. mars til 10. apríl 2014. Heildarúrtaksstærð var 2.144 Reykvíkingar 18 ára eða eldri valdir af handahófi úr Viðhorfahópi Capacent Gallup og þátttökuhlutfall var 60,1%. Vikmörk eru 1,0-2,8%

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert