Styður ekki lengur framboðið

Efsta fólk á lista framsóknarmanna og flugvallarvina. Hreiðar er lengst …
Efsta fólk á lista framsóknarmanna og flugvallarvina. Hreiðar er lengst til vinstri og Sveinbjörg fyrir miðju. www.framsokn.is

„Það er því með sorg í hjarta sem ég læt hér með vita af því að ég styð ekki lengur framboð Framsóknar og flugvallarvina til borgarstjórnar í Reykjavík,“ segir Hreiðar Eiríksson á Facebook-síðu sinni í kvöld en hann skipar 5. sæti á framboðslistanum. Ástæðan er ummæli oddvita listans í dag þess efnis að hún teldi að hætta ætti við að úthluta Félagi múslima lóð í Reykjavík undir mosku og leyfa borgarbúum að greiða atkvæði um þá ákvörðun.

Hreiðar segir að þessi stefna hafi aldrei verið rædd á vettvangi framboðsins. Hann gagnrýnir þau ummæli Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur, oddvita framboðslistans, að málið snúist um lýðræði og minnir á að mannréttindaákvæði séu sett í stjórnskipunarlög til þess að tryggja að meirihlutinn geti ekki gengið á hlut minnihlutahópa. Hann hafi lagt sig fram við að styðja framboðið en verði að rísa upp þegar oddviti þess boði stefnu sem það hafi ekki. Það stríði gegn samvisku sinni að styðja skoðanir eins og þær sem oddvitinn hafi kynnt. Hann hafi rætt við Sveinbjörgu og kynnt henni sjónarmið sín.

„Það er því með sorg í hjarta sem ég læt hér með vita af því að ég styð ekki lengur framboð Framsóknar og flugvallarvina til borgarstjórnar í Reykjavík. Ég mun áfram verða félagi í Framsóknarflokknum enda er sá flokkur skipaður víðsýnu fólki, af ólíkum trúarbrögðum og með ólíkan menningarbakgrunn, sem vill vinna að samvinnu, einingu og réttlæti fyrir alla. Ég bið ykkur að kjósa samkvæmt sannfæringu ykkar en bið ykkur að sneiða hjá öllu sem daðrar við þjóðernishyggju eða óeiningu milli menningar og trúarhópa. Nafn mitt verður áfram á listanum, því ómögulegt er að fjarlægja það eftir að framboðsfrestur rann út. Ég hef hins vegar óskað eftir því að myndir af mér verði fjarlægðar af kosningaskrifstofum framboðsins.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert