Leitað verður skýringa og sökudólga

Styrmir Gunnarsson.
Styrmir Gunnarsson. mbl.is/Ragnar Axelsson

„Hrynji Sjálfstæðisflokkurinn í höfuðborginni og hverfi Framsóknarflokkurinn mun tvennt gerast. Annars vegar veikist ríkisstjórnin verulega. Hins vegar hefjast hjaðningavíg innan flokkanna,“ segir Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, á vefsíðunni Evrópuvaktin vegna borgarstjórnarkosninganna sem fram fara í lok mánaðarins.

Styrmir segir að framsóknarmenn eigi eftir að spyrja þeirrar spurningar hvort tími Framsóknarflokksins sé liðinn þrátt fyrir kosningasigurinn í þingkosningunum fyrir ári. Sjálfstæðismenn eigi hins vegar eftir að spyrja þeirrar spurningar hvort dagar Sjálfstæðisflokksins sem mesta áhrifaafls í íslenskum stjórnmálum heyri fortíðinni til. Leitað verði skýringa í báðum flokkum sem og sökudólga.

Ekki sé þó víst að illa fari fyrir Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík. „Í eina tíð var flokkskerfi Sjálfstæðisflokksins í höfuðborginni það öflugt að það gat náð sér á strik á skömmum tíma og forðað óförum. Hvort styrkur þess sé enn svo mikill skal ósagt látið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert