Ekki hægt að afturkalla lóðina

Shah Jahan moskan í bænum Woking í Bretlandi.
Shah Jahan moskan í bænum Woking í Bretlandi. Wikipedia/Roger W. Haworth

Ekki verður séð að lagastoð sé fyrir því að afturkalla úthlutun lóðar í Reykjavík til Félags múslima á Íslandi þar sem ætlunin er að reisa mosku. Þetta kemur fram í svari frá Kristbjörgu Stephensen, borgarlögmanni, við fyrispurn frá mbl.is.

Tekin var ákvörðun um að úthluta umræddri lóð við Sogamýri í september síðastliðnum af meirihluta Samfylkingarinnar, Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs og Besta flokksins sem skömmu síðar varð hluti Bjartrar framtíðar. Talsverð umræða hefur skapast að undanförnu um lóðarúthlutunina í kjölfar þess að Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, oddviti framboðs Framsóknarflokksins og flugvallarvina til borgarstjórnar, lýsti því yfir að hún teldi að afturkalla ætti lóðina í Sogamýri og leggja málið í dóm borgarbúa í sérstakri kosningu. 

Kristbjörg bendir á að lóðarúthlutun sé stjórnvaldsákvörðun og fjallað sé um heimildir til afturköllunar slíkra ákvarðana í 25. grein stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þar segi að stjórnvald geti að eigin frumkvæði afturkallað ákvörðun sína sem tilkynnt hafi verið aðila máls í þeim tilfellum sem það er ekki til tjóns fyrir aðila eða þegar ákvörðun er ógildanleg.

„Afturkallanir ívilnandi stjórnvaldsákvarðana á borð við lóðarúthlutun, telst almennt vera til tjóns fyrir viðkomandi. Svo ákvörðun teljist ógildanleg verður hún að vera haldin verulegum annmarka að lögum enda mæli veigamikil rök ekki gegn því að ákvörðunin verði ógilt. Ekki verður séð að það eigi við um þá stjórnvaldsákvörðun, sem þú vísar til í fyrirspurn þinni,“ segir hún ennfremur.

Kveðið á um ókeypis lóðir í lögum frá 1970

Umræðan að undanförnu hefur einnig snúist um það hvort sveitarfélög eigi að úthluta trúfélögum lóðir endurgjaldslaust undir tilbeiðsluhús eða hvort taka eigi fullt verð fyrir líkt og til að mynda í tilfellum einstaklinga.

Heimild fyrir því að úthluta slíkum lóðum endurgjaldslaust er að finna í lögum um Kristnisjóð o.fl. nr. 35/1970 þar sem segir: „Sveitarfélögum kaupstaða og kauptúna er skylt að leggja til ókeypis lóðir undir kirkjur og undanskilja þær gatnagerðargjaldi.“

Ljóst má vera að upphaflega hafa lögin verið hugsuð með Þjóðkirkjuna í huga. Síðar var litið svo á að lögin næðu einnig til tilbeiðsluhúsa annarra trúarbragða með skírskotun í ákvæði stjórnarskrárinnar um jafna stöðu fólks með tilliti til trúarbragða. Sveinbjörg Birna hefur einnig lýst þeirri skoðun að falla eigi frá þeirri stefnu.

Ekki gerð krafa um að skilyrði væru uppfyllt

Borgarfulltrúar sjálfstæðismanna sátu hjá þegar samþykkt var í borgarráði Reykjavíkur að úthluta lóðinni til Félags múslima á Íslandi 19. september síðastliðinn á þeim forsendum að stjórnsýslan í kringum málið hefði verið óskiljanleg og óásættanleg.

Þannig hafi úthlutunin til að mynda ekki verið ákveðin sem hluti af aðalskipulagi og verið í trássi við samþykkt í skipulagsráði borgarinnar í apríl 2011 og borgarráði mánuði síðar um að setja tímamörk á lóðaúthlutanir til trúfélaga þannig að þeim yrði skilað eftir tvö ár ef framkvæmdir hefðu ekki hafist og að trúfélög skyldu upplýsa við úthlutun hvernig framkvæmdir yrðu fjármagnaðar. Samþykktin hafi verið einróma í bæði skipti.

„Þrátt fyrir að borgarráð hafi samþykkt sérstaka skilmála sem gilda eiga fyrir öll trúfélög eru þeir ekki hluti af úthlutunarskilmálum lóðar við Suðurlandsbraut [Sogamýri]. Slík stjórnsýsla er óskiljanleg. Fordæmalaust er að borgarráð kannist ekki við eigin ákvarðanir. Lágmarkskrafa hefði verið, ef fulltrúar meirihlutaflokkanna í borgarstjórn vildu breyta fyrri samþykktum, að taka málið upp að nýju og gera breytingar með formlegum hætti. Útilokað er að standa að ákvörðun sem stjórnsýslulega er vægast sagt vafasöm,“ segir í bókun borgarfulltrúa sjálfstæðismanna.

Breiður stuðningur við endurskoðun laganna

Einnig kom fram í bókun borgarfulltrúa sjálfstæðismanna að endurskoða þyrfti ákvæði laga um Kristnisjóð um ókeypis lóðir til trúfélaga. Ákvæðið ætti ekki við lengur. Tóku þeir þar undir með meirihluta Samfylkingarinnar, Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs og Besta flokksins, sem síðar rann inn í Bjarta framtíð sem fyrr segir, sem lögðu áherslu á það sama í sinni bókun.

Þar kom fram að farsælast væri að breyta lögunum enda mætti búast við því að í fjölmenningarsamfélagi nútímans ætti trúfélögum eftir að fjölga. Skoraði meirihlutinn á Alþingi að breyta lögunum þannig að trúfélög greiddu fyrir lóðir líkt og ætti við um aðra mikilvæga starfsemi.

„Lögin voru sett á tíma þegar trúarlíf þjóðarinnar var almennara og einsleitara og meiri sátt ríkti um þátttöku opinberra aðila í rekstri trúfélaga. Á þeim tíma mátti færa fyrir því rök að eðlilegt væri að Reykjavíkurborg léti frá sér án endurgjalds lóðir undir kirkjur. Það er tímaskekkja að skylda sveitarfélög einhliða til að ráðstafa dýrmætu borgarlandi án endurgjalds til þeirra trúfélaga sem sækjast eftir því. Reykjavíkurborg styður eftir sem áður fjölbreytt trúarlíf í borginni,“ segir í bókun meirihlutans.

Þannig má ætla að hvað sem líði afstöðu til þeirrar ákvörðun að úthluta Félagi múslima á Íslandi umræddri lóð í Reykjavík sé fyrir hendi breið þverpólitísk samstaða um að breyta þurfi lögum um Kristnisjóð með þeim hætti að sveitarfélögum verði ekki lengur skylt að úthluta trúfélögum lóðum undir tilbeiðsluhús sín endurgjaldslaust. Við það má bæta að samkvæmt skoðanakönnun sem MMR gerði í október 2013 sögðust rúm 70% aðspurðra vera andvíg því að sveitarfélög úhlutuðu trúfélögum lóðir endurgjaldslaust.

Laugarneskirkja, ein af kirkjum Þjóðkirkjunnar í Reykjavík.
Laugarneskirkja, ein af kirkjum Þjóðkirkjunnar í Reykjavík. mbl.is/Brynjar Gauti
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert