Sex af 14 frambjóðendum hættir

Reykjanesbær.
Reykjanesbær. mbl.is

Sex frambjóðendur af þeim 14 sem skipa framboðslista Pírata í Reykjanesbæ eru hættir þátttöku í framboðinu. Þeir verða þó áfram á framboðslistanum enda ekki hægt að breyta honum rétt fyrir kosningar. Meðal þeirra sem eru hættir er Páll Árnason sem skipað hefur fjórða sæti listans. Aðrir sem hættir eru skipa sæti neðar á listanum.

Páll segir í samtali við mbl.is að ástæðan sé samstarfserfiðleikar við oddvita framboðsins, Trausta Björgvinsson. Sömuleiðis yfirlýsing hans í fjölmiðlum að hann vildi samstarf við sjálfstæðismenn að loknum kosningum. Þá hafi hann að sögn Páls ekki virt grunnstefnu Pírata um lýðræði og upplýsingagjöf til almennings. Hann hafi ekki viljað að frambjóðendur Pírata gæfu fólki skýr svör um stefnu framboðsins til þess að styggja ekki mögulegt samstarf við önnur framboð eftir kosningar.

Trausti vísar þessu alfarið á bug í samtali við mbl.is. Ekki hafi verið farið gegn grunnstefnu Pírata af hálfu framboðsins. Ennfremur legði hann ekki sérstaka áherslu á samstarf við sjálfstæðismenn. Hann segir Pál hins vegar hafa viljað útiloka samstarf við sjálfstæðismenn en vilji sinn og annarra væri að loka ekki á neinn möguleika í því sambandi. Þá hafi Páll ekki sýnt neinn vilja til þess að slíðra sverðin og ná sáttum í málinu þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir í þá veru. Meðal annars með aðkomu Helga Hrafns Gunnarssonar, þingmanns Pírata. „Þessi staða er bara hræðilega leiðinleg. Við segjum bara hreint út við kjósendur hvernig þetta sé.“

Trausti segist telja ástæðu þess að svo margir frambjóðendur hefðu yfirgefið framboðið vera þá að hinir sem hefðu hætt væru tengdir Páli fjölskylduböndum. Páll staðfestir í samtali við mbl.is að það sé rétt að undanskildum einum. Hins vegar vill hann ekki meina að það hafi ráðið úrslitum. „Þetta eru allt fullorðnir einstaklingar sem taka sínar ákvarðanir.“ Hann hafi ekki þrýst á þá í þeim efnum og þvert á móti hvatt þá til þess að halda áfram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert