Ekki í boði að telja allt aftur

Brynjar Guðnason, oddviti Pírata í Hafnarfirði.
Brynjar Guðnason, oddviti Pírata í Hafnarfirði.

Kjörstjórn Hafnarfjarðar tilkynnti framboði Pírata í bænum í morgun að ekki yrði fallist á kröfu þeirra um algera endurtalningu vegna bæjarstjórnarkosninganna sem fram fóru síðastliðinn laugardag.

Þetta staðfestir Brynjar Guðnason, oddviti Pírata í Hafnarfirði, í samtali við mbl.is en einungis munaði sex atkvæðum á að hann kæmist inn í bæjarstjórn í stað þriðja manns Samfylkingarinnar. Kjörstjórnin kom ennfremur þeim sjónarmiðum á framfæri við Pírata að einungis væri í boði að telja aftur atkvæði Pírata og Samfylkingarinnar.

Brynjar segir að Píratar hafi ekki viljað fallast á það og ekki viljað hvika frá kröfunni um algera endurtalningu. Spurður hvort Píratar verði hugsanlega reiðubúnir að sætta sig við að einungis verði talin atkvæði þeirra og Samfylkingarinnar fái þeir formlega höfnun á kröfu sinni segir hann að ekki verði tekin afstaða til þess fyrr en hún liggi fyrir.

Kjörstjórn Hafnarfjarðar fundaði í morgun um málið. Formaður hennar, Jóna Ósk Guðjónsdóttir, sagðist ekki vilja tjá sig um málið fyrr en Pírötum hefði verið formlega tilkynnt um niðurstöðu fundarins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert