„Erum bjartsýn á framhaldið“

Frá Kópavogi.
Frá Kópavogi. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Þetta gengur bara vel og við erum bjartsýn á framhaldið,“ segir Theodóra S. Þorsteinsdóttir, oddviti Bjartrar framtíðar í Kópavogi, í samtali við mbl.is spurð út í stöðuna í viðræðum flokksins við sjálfstæðismenn um myndun meirihluta í bæjarstjórn í kjölfar sveitarstjórnarkosninganna um helgina.

Theodóra segist aðspurð að Björt framtíð geri ekki kröfu um bæjarstjórastólinn. „Nei, við gerum ekki kröfu um hann. Miðað við gengi sjálfstæðismanna lítum við svo á að almenn ánægja sé með bæjarstjórann og við sjáum ekki ástæðu til að hrófla við því.“ Spurð um önnur embætti segir hún viðræðurnar ekki komnar svo langt. Fyrst verði farið yfir málefnin og náð lendingu varðandi þau áður en farið verði að ræða slíkt.

Fulltrúar Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokksins funda núna klukkan 13:30 og gert er ráð fyrir að fundað verði tvisvar á dag næstu daga. Theodóra segir viðræðurnar fara fram á breiðum grunni með aðkomu margra frá báðum flokkum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert