Sigrún áfram bæjarstjóri í Sandgerði

Hólmfríður Skarphéðinsdóttir oddviti D-listans, Ólafur Þór Ólafsson oddviti S-listans og …
Hólmfríður Skarphéðinsdóttir oddviti D-listans, Ólafur Þór Ólafsson oddviti S-listans og Sigrún Árnadóttir bæjarstjóri.

Samfylkingin og óháðir borgarar og sjálfstæðismenn og óháðir hafa náð samkomulagi um samstarf í meirihluta bæjarstjórnar Sandgerðisbæjar. Samstarfið leggur áherslu á áframhaldandi ábyrga fjármálastjórn og að bæjarbúar njóti þess svigrúms sem skapist í rekstri bæjarsjóðs með lækkuðum álögum og bættri þjónustu.

„Listarnir hafa komist að samkomulagi um að Sigrún Árnadóttir verði áfram bæjarstjóri Sandgerðisbæjar, Ólafur Þór Ólafsson verði forseti bæjarstjórnar og Hólmfríður Skarphéðinsdóttir verði formaður bæjarráðs. Stefnt er að því að fyrsti bæjarstjórnarfundur nýs kjörtímabils fari fram miðvikudaginn 18. júní og þar verður sameiginleg málefnasýn listanna lögð fram,“ segir í fréttatilkynningu.

Sjálfstæðismenn og óháðir hlutu einn mann í sveitarstjórnarkosningunum um síðustu helgi en Samfylkingin og óháðir borgarar þrjá. Samanlagður fjöldi bæjarfulltrúa er því fjórir af sjö fulltrúum í bæjarstjórn. Viðræður á milli framboðanna hófust strax að loknum kosningum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert