Tóku sjálfstæðismenn með í meirihlutann

Frá Sauðárkróki.
Frá Sauðárkróki. mbl.is/Sigurður Bogi

Gengið var formlega frá meirihlutasamstarfi Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins í sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar í gærkvöldi. Frá þessu er greint á fréttavefnum Feyki.

Samstarfið hefur vakið athygli í ljósi þess að framsóknarmenn fengu hreinan meirihluta í sveitarstjórnarkosningunum um síðustu helgi. Fimm fulltrúar af níu. Vinstrihreyfingin - grænt framboð fékk einn mann kjörinn og Skagafjarðarlistinn einn.

Spurður um ástæður þess að semja við sjálfstæðismenn segir Stefán Vagn Stefánsson, oddviti framsóknarmanna, að ákveðið hefði verið að mynda meirihluta á breiðari grunni þar sem það þjónaði hagsmunum sveitarfélagsins betur.

„Við erum jú kjörin til að þjóna hagsmunum sveitarfélagsins og íbúa þess og teljum það best gert á þennan hátt,“ er haft eftir Stefáni. Hann segir stóru málin á kjörtímabilinu verða að fjölga íbúum sveitarfélagsins og efla atvinnulífið.

Frétt Feykis

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert