Yrði ekki pólitískt framboð

Vigfús Bjarni Albertsson, sjúkrahúsprestur á Landspítalanum.
Vigfús Bjarni Albertsson, sjúkrahúsprestur á Landspítalanum.

Vigfús Bjarni Albertsson, sjúkrahúsprestur á Landspítalanum, hefur enn ekki tekið ákvörðun um það hvort hann muni bjóða sig fram til forseta Íslands. „Við hjónin erum að hugsa þetta í sameiningu núna, það er margt sem við þurfum að melta og ákvörðunin verður tekin í sameiningu.“ Hann segir þó að farið sé að styttast verulega í að endanleg ákvörðun verði tekin. 

Vigfús Bjarni segir koma á óvart hversu margir hafi haft samband við sig og lýst yfir og áhuga á framboðinu. „Okkur þykir ótrúlega vænt um hvað margir hafa haft samband og allt er þetta fólk sem maður tekur sannarlega mark á í samfélaginu.“ Hann segist ætla að vera áfram í sambandi við allt þetta góða fólk og taka mark á því við töku ákvörðunar.

Ef að framboði verður mun Vigfús Bjarni leggja áherslu á samfélagsmál og gefa þeim rödd sem ekki hafa haft hana í samfélaginu. „Framboðið myndi snúast um það að leiða fólk saman og leiða það saman sem við eigum sameiginlegt sem lítil þjóð og lítið samfélag.“

Hann segir að framboðið yrði ekki pólitísk en að lögð yrði áhersla á  líf í fjölskyldum og líf í tengslum. „Mér heyrist á fólki að það sé það sem verið er að þrýsta á okkur að gera.“ Þá mun framboðið ekki snúast um að vinna eða tapa heldur að skapa ákveðna orðræðu og ákveðið samtal. Framboðið myndi ekki beinast gegn neinum né snúast um það hverjir aðrir væru í framboði.

Vigfús Bjarni Albertsson hefur starfað í ellefu ár sem sjúkrahúsprestur á Landspítalanum, einkum á Barnaspítala Hringsins. Samhliða því hefur hann kennt sorgar- og áfallameðferð við endurmenntunardeild Háskóla Íslands. Vigfús Bjarni er kvæntur Valdísi Ösp Ívarsdóttur, fíknifræðingi, og saman eiga þau þrjú börn.

Frétt mbl.is - Skora á Vigfús Bjarna

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert