Deilt um forval innan VG

kosningar kjörkassi atkvæði atkvæðagreiðsla
kosningar kjörkassi atkvæði atkvæðagreiðsla mbl.is/Ómar Óskarsson

„Mér fyndist persónulega betri bragur á því að auglýsa fund sem ákveða á fyrirkomulag við val á lista með lengri fyrirvara. Og að undangengnum umræðum,“ segir Líf Magneudóttir, varaborgarfulltrúi Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, á Facebook-síðu VG í Reykjavík en boðað hefur verið til fundar á morgun í félaginu þar sem ákveða á með hvaða hætti eigi að velja á framboðslista fyrir fyrirhugaðar þingkosningar næsta haust.

Stjórn VG í Reykjavík hefur lagt fram tillögu fyrir fundinn þess efnis að uppstillinganefnd sjái um að velja á framboðslista flokksins í höfuðborginni í stað þess að haldið verði forval. Lagt er til að eftirfarandi tillaga verði samþykkt á fundinum á morgun:

„Félagsfundur Vinstri grænna í Reykjavík samþykkir að leita eftir tilnefningum frá félagsmönnum um einstaklinga til að skipa V-lista í Reykjavíkurkjördæmum við komandi kosningar í haust. Félagsmönnum skal sent bréf og þeir beðnir að tilnefna fyrir 20. maí n.k bréflega, í tölvupósti eða á sérstakri síðu á vef hreyfingarinnar 1–5 nöfn. Fimm manna uppstillinganefnd skipuð 3 fulltrúum stjórnar, þar af einum sem er formaður; 1 frá EVG og 1 frá UVG, velur úr tilnefningunum og gerir tillögu um skipan listanna til félagsfundar sem halda skal fyrir 10. júní n.k.“

Með skömmum fyrirvara á annasömum tíma

Talsverð umræða skapast um fundarboðið en þar kemur meðal annars fram að fyrirvarinn hafi aðeins verið þrír dagar. Þá er gagnrýnt að fundinum hafi verið flýtt. Bjarni Þóroddsson, sem sæti á í flokksráði VG, spyr að því hvers vegna fundinum hafi verið flýtt og hvers vegna fundurinn hafi ekki verið boðaður með lengri fyrirvara. Fundurinn hafi verið boðaður með skömmum fyrirvara um hádegisbilið á laugardegi á árstíma sem er sá annasamasti á árinu fyrir marga félagsmenn.

Benóný Harðarson, formaður VG í Reykjavík, svarar í umræðunni og segir að um sé að ræða tillögu stjórnar sem félagsfundurinn taki síðan afstöðu til. „Með tímasetninguna á fundinum, við erum að fara í kosningar í haust sept/okt væntanlega, við höfum því 5-6. mánuði til stefnu. Ef það væru reglulegar kosningar væri undirbúningur komin lengra á veg, þessi leið sem stjórn leggur til tekur nokkrar vikur og erfitt að gera þetta yfir hásumarið. Ég ætla ekki að rífast við neinn hérna inni, en það eru held ég allir að reyna að gera sitt besta.“

Bjarni bregst við þessu með því að benda á að ekki þurfi að skila inn framboði fyrr en í ágúst í fyrsta lagi. Spyr hann hvort ekki sé hægt að taka eðlilegan frest á slíka fundi enda séu að sögn Benónýs 5-6 mánuðir til stefnu. Líf svarar Benóný einnig og segir engan vera að rífast. Aðeins sé verið að pæla og leita svara.

Þrjú aðildarfélög VG sendu frá sér ályktanir í gær þar sem hvatt er til þess að notast verði við forval um allt land við val á framboðslista flokksins enda sér það lýðræðislegasta leiðin til þess. VG í Skagafirði, VG í Borgarbyggð og UVG, ungliðahreyfing VG.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert