Vilja að forval fari fram í VG

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG.
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG. mbl.is/Ómar Óskarsson

Félög innan Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs hafa sent frá sér ályktanir þar sem kallað er eftir því að forval fari fram um allt land við val á framboðslista flokksins fyrir fyrirhugaðar þingkosningar í haust. Skiptar skoðanir eru um það innan flokksins hvort notast eigi við forval eða uppstillinganefndir við val á framboðslistana.

„VG mun ganga til kosninga með lýðræðisumbætur að leiðarljósi. Liður í því er að kjördæmisráðið í NV kjördæmi í samvinnu við svæðisfélögin, standi síðla sumars eða hausts fyrir forvali til röðunar á framboðslista vegna komandi alþingiskosninga. Þar gefst félögum kostur á að bjóða fram krafta sína fyrir hreyfinguna, því fólki sem átt hefur sæti á lista gefst tækifæri til að endurnýja umboð sitt og Vinstrihreyfingunni grænu framboði í Norðvesturkjördæmi að tefla fram þeim lista sem félögum þykir sterkastur og sigurstranglegastur. Það er því niðurstaða og álit stjórnar svæðisfélags VG í Skagafirði að forval skuli fara fram í aðdraganda komandi alþingiskosninga,“ segir í ályktun VG í Skagafirði frá í gær.

Tekið er í sama streng í ályktun frá stjórn VG í Borgarbyggð sem einnig var samþykkt í gær en þar segir: „Stjórn VG í Borgarbyggð vill árétta mikilvægi þess að haldið verði leiðbeinandi forval í aðdraganda kosninga. Það er í anda þeirrar lýðræðislegu stefnu sem hreyfingin stendur fyrir en við teljum uppstillingu ekki jafn heppilega í því tilliti. Við hvetjum kjördæmisráð til þess að taka tillit til þess nú þegar undirbúningur kosninga fer af stað.“

Þá sendi framkvæmdastjórn UVG, ungliðahreyfingar VG, einnig frá sér ályktun sama efnis í gær þar sem segir: „Ung vinstri græn hvetja til þess að forval verði haldið í öllum kjördæmum til að stilla upp listum hreyfingarinnar fyrir komandi alþingiskosningar. Forval er lýðræðislegasta leiðin sem í boði er auk þess að það fyrirkomulag gefur frambjóðendum skýrt umboð félaga sinna. Þeir kostir sem kunna að fylgja uppstillingu vega ekki upp á móti göllunum. Einnig minna UVG á samþykkt síðasta landsfundar um að ungliði skipi eitt af efstu þremur sætunum í öllum kjördæmum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert