„Það er ekkert að óttast“

Guðni Th. Jóhannesson ásamt fjölskyldu sinni í Salnum í Kópavogi …
Guðni Th. Jóhannesson ásamt fjölskyldu sinni í Salnum í Kópavogi í dag. mbl.is/Golli

„Í sumar göngum við til forsetakjörs. Ég verð þar í framboði,“ sagði Guðni Th. Jóhannesson að viðstöddu fjölmenni er hann hóf fund sem hann hafði boðað til í Salnum í Kópavogi.

Guðni þakkaði kærlega fyrir stuðninginn. „Orð fá því eiginlega ekki lýst hversu mikils ég met þann stuðning sem þið sýnið mér núna, og sýnið vonandi áfram,“ sagði hann ennfremur.

Guðni segist hafa fengið fjölmargar áskoranir úr öllum áttum. „En lokaákvörðunin, hún var mín. Hún var mín og Elísu konunnar minnar og nánustu vina,“ sagði hann.

Hér má lesa meginstefnu Guðna

Guðni Th. Jóhannesson vill að ráðamenn í landinu séu heiðarlegir.
Guðni Th. Jóhannesson vill að ráðamenn í landinu séu heiðarlegir. mbl.is/Golli

Þjóðin eigi lokaorðið

„Við viljum að forseti sé fastur fyrir þegar á þarf að halda. Forseti á að tryggja að þjóðin eigi alltaf síðasta orðið í stærstu málum sem hana varðar. Um leið á forseti að standa utan við fylkingar í samfélaginu. Fólkið í landinu á að finna að hann sé ekki liði með einum á móti öðrum. Forsetinn á að vera í nánum tengslum við alla landsmenn. Oft á hann að hlusta frekar en að tala, þó það hljómi kannski undarlega þegar ég er hérna megin við hljóðnemann,“ sagði Guðni og uppskar hlátur.

Hann tók fram að forsetinn geti þurft að taka óvinsælar ákvarðanir. Hann eigi samt að stefna að því að vera málsvari allra Íslendinga, og ekki síst þeirra sem minna mega sín. Hann eigi að vera sameiningartákn þjóðarinnar. 

Hann segir að fyrri forsetar hafi mótað embættið eftir sínu höfði en innan þess ramma sem lög og hefðir skapa. Þessu fordæmi eigi næsti forseti að fylgja en fyrst og fremst eigi hann að vera öllum óháður, hlýða eigin samvisku og þjóna öllum jafnt í landinu. 

Fjölmenni var samankomið í Salnum í Kópavogi.
Fjölmenni var samankomið í Salnum í Kópavogi. mbl.is/Golli

Forsetinn á að vera stoltur en hógvær - vill endurskoða stjórnarskrána

Guðni segir að forsetinn eigi að láta sér jafnrétti varða. Allir séu jafnir fyrir lögunum og almættinu. „Við eigum að standa saman, við eigum að leggja okkar af mörkum til samfélagsins.“

Hann segir ennfremur, að forsetinn sé málsvari Íslands á erlendum vettvangi. „Andlit okkar í augum heimsins. Hann á styðja við menningu og listir, atvinnu og viðskiptalíf. Í þessum atbeina sínum, fyrir Íslands hönd, á forseti Íslands að vera stoltur en hógvær. Hann á að vera kappsamur án yfirlætis.“

Guðni segir að forsetinn hljóti að láta endurskoðun stjórnarskrárinnar sig varða. Í hana þurfi að koma það ákvæði að tilskilinn hluti kjósenda geti krafist þjóðaratkvæðis um umdeild mál. „Beint lýðræði á ekki að felast í því að við þurfum að arka til Bessastaða með bænaskrá í annarri hendi og blys í hinni og biðja um að fá að kjósa um það sem okkur varðar.“

Viljum að ráðamenn séu heiðarlegir og standi við orð sín

Hann benti á að ágreiningur væri í raun aðalsmerki þróaðs samfélags. Menn eigi að geta deilt harkalega en virt leikreglur og komist að niðurstöðu.

„Svo er það líka þannig að stjórnarskrárbreytingar skipta engu máli ef valdhafar bregðast trausti og trúnaði fólksins. Við öll, almenningur í landinu, biðjum í raun um ekki mikið. Við biðjum ekki um fullkomið samfélag, fullkomna valdhafa. Við biðjum einfaldlega um að ráðamenn í samfélaginu séu heiðarlegir, standi við orð sín og hafi ekkert að fela,“ sagði Guðni og bætti við að auðvitað sé enginn gallalaus.

Hann segir að Íslendingar búi í fjölskylduvænu velferðarsamfélagi þar sem allir eigi að geta sameinað annir í starfi og sjálfsagðar skyldur gagnvart fjölskyldu og börnum. „Og nái ég kjöri í sumar þá held ég áfram að hjóla í leikskólann með krökkunum og í skólann líka.“

Framtíðin er björt

Guðni segir að framtíðin sé björt. „Það er ekkert óttast. Við þurfum ekki að ganga til hvílu á kvöldin hrædd um það sem kunni að gerast að morgni. Auðvitað vitum við aldrei hvað framtíðin ber í skauti sér en einmitt í því felst hin fagra óvissa lífsins,“ sagði Guðni.

„Sagan segir okkur líka að okkur mun takast að mynda ríkisstjórnir og þola mótmæli. Okkur hefur tekist þetta hingað til og okkur skal takast þetta áfram. Og vonandi tekst okkur líka áfram að gera samfélagið okkar örlítið betra í dag en það var í gær. Þótt margt megi í raun bæta, þótt margt verði bæta, þá er í raun forréttindi að alast upp á Íslandi. Það eru forréttindi að búa í þessu landi.“

Hann bætti því við í lok ræðu sinnar að Íslendingar þurfi ekki að monta sig. „Við þurfum ekki að sýna meting. Við þurfum ekki að stæra okkur. Við þurfum ekki að segja öðrum að við séum betri en aðrir. Fólk með sjálfstraust það er fólk sem hefur hógværð í hjarta sínu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert