Gaman að sjá meðbyrinn svart á hvítu

Guðni Th. Jóhannesson.
Guðni Th. Jóhannesson. mbl.is/Golli

Guðni Th. Jóhannesson, forsetaframbjóðandi, segir mikið fylgi sitt í skoðanakönnun MMR ekki endilega hafa komið sér á óvart. 

„Já og nei. Ég finn mikinn meðbyr og finn mikinn stuðning við mína sýn á þetta embætti en óneitanlega gleður það mann að sjá þetta svona svart á hvítu,“ segir Guðni. „Á hitt er að líta að nú fer Ólafur á brott og Davíð Oddssyni er skipt inn á í hans stað. Þá er að sjá hvað gerist í framhaldinu.“

Guðni mældist með tæplega 60% fylgi í skoðanakönnuninni á meðan Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, var í öðru sæti með um 25% fylgi.

Frétt mbl.is: Guðni Th. með afgerandi forystu

Vill að Ólafur Ragnar fái svigrúm

Aðspurður segir hann að ákvörðun Ólafs Ragnars Grímssonar um að sækjast ekki eftir endurkjöri til embættis forseta Íslands, hafi ekki ekki komið sér á óvart.

„Hann hélt þessari leið opinni að snúast hugur á ný. Ég vænti þess að næsti forseti, hver sem það verður, muni gefa Ólafi það sjálfsagða svigrúm að sinna því sem hann hefur sinnt svo vel, til dæmis málefnum norðurslóða og framlagi Íslands til notkunar á endurnýtanlegri orku. Í þessum efnum er Ólafur á heimavelli og við getum vonandi áfram notið góðs af þessum kraftmikla arfi hans á þessum vettvangi,“ segir Guðni.

Spurður hvort hann sé ánægður með að svo stór keppinautur um forsetaembættið skuli hættur við framboð segist Guðni ekki velta vöngum yfir því. „Það er ennþá ráðrúm fyrir fleiri meðframbjóðendur og það er ekkert víst í þessum efnum. Það sýna atburðir síðustu daga heldur betur.“

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, ætlar ekki að gefa kost …
Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, ætlar ekki að gefa kost á sér í forsetakosningunum í júní. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Spennandi kosningabarátta framundan

Guðni segist spenntur fyrir komandi kosningabaráttu, sem verði skemmtileg. „Nú tekur við enn frekari kynning á málstaðnum. Ég hlakka til að hitta fólk hér á höfuðborgarsvæðinu og úti á landi, unga sem aldna, konur og karla, þá sem eru mér ósammála og þá sem eru mér sammála,“ segir hann. „Svona virkar lýðræðið. Þegar úrslitastundin rennur upp þá er það fólkið sem velur forsetann.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert