„Eins og maður væri ekki í framboði“

Ari Jósepsson
Ari Jósepsson

Ari Jósepsson hefur hætt við forsetaframboð sitt. Þetta staðfestir hann í samtali við mbl.is. Í dag átti að skila inn undirskriftum meðmælenda til yfirkjörstjórna. Að lágmarki þurfti 1.500 undirskriftir samtals úr öllum landsfjórðungum. Ari segir að hann hafi verið langt kominn með söfnunina en að baráttan væri orðin „mikið rugl“ og að aðeins þrír mögulegir frambjóðendur fengju alla athygli fjölmiðla. Hann hafi því ákveðið að hætta við.

„Mér fannst eins og maður væri ekki í framboði. Voru svo margir, en það er eins og það séu bara Davíð Oddsson, Guðni Th og Andri í framboði, bara fjallað um þá,“ segir Ari. Bendir hann t.d. á að Sturla Jónsson hafi sjaldan verið nefndur þótt Ari hafi sjálfur haft mikið álit á honum. Rúv sagði fyrst frá ákvörðun Ara.

Ari segist því leggja forsetahugmyndirnar til hliðar þar sem framundan hefði verið mikil vinna sem óljóst er að hefði skilað miklu. „Ég var ekki að fara að leggja rosa vinnu í þessar kosningar eins og staða er í dag, þetta er orðið svo mikið rugl.“

Ari segist nú ætla að farga öllum undirskriftunum í blaðatætara, en hann segist hafa verið kominn langleiðina með að fá undirskriftir. ÞAnnig hafi fólk tekið vel í framboð hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert