Ætlar að gera „ekkert“ sem forseti

Það styttist í að ljóst verði hvaða frambjóðendur til forseta nái að safna nægum undirskriftum til þess að halda framboði sínu til streitu.

Elísabet Jökulsdóttur er staðráðin í að ná tilskildum fjölda en mbl.is hitti hana á leik KR og FH þar sem hún var að safna undirskriftum. Elísabet sagði söfnunina ganga ljómandi og að hún hygðist skila undirskriftunum inn með hjálp þyrlu Landhelgisgæslunnar. Úr því virðist hins vegar ekki hafa orðið.

Aðspurð hvað hún vildi gera við forsetaembættið gaf Elísabet einfalt svar: Ekkert!

„Ég vil bara gera ekkert. Ég vil bara að við förum að slappa svolítið af og lengja kaffitímann, taka upp svolítið vídeó og sofa út og heilsa hvert öðru, bjóða góðan daginn, tala saman þegar okkur líður illa og bara gera ekkert. Okkur er stýrt frá morgni til kvölds af þessu samfélagi sem við höfum búið til; á leikskólana, í vinnuna, í ræktina, á skemmtistaðina, í allt þetta og við vitum ekki ... hvað viljum við?“

Elísabet hlær þegar því er velt upp hvernig þjóðin muni bregðast við þessum hugmyndum í kjörklefanum.

„Heyrðu, þeir kannski gera ekki neitt og kjósa ekkert. Ég hafði ekki hugsað út í þetta.“

Himneskur bjölluhljómur og glimmerregn

Elísabet er í fjölmennum hópi þeirra sem mælst hafa með lægsta fylgið í skoðanakönnunum, oftar en ekki undir einu prósenti. Hún lætur mótlætið þó ekki á sig fá.

„Ég er náttúrlega 50 árum á undan minni samtíð. Ég er með sterkan vatnsbera í kortinu, þetta kannski virkar sem bull en ég veit alveg að ég er á undan minni samtíð og ég veit að það sem ég er að gera í dag mun hafa áhrif, t.d. þótt ég komist ekki inn í kosningarnar eða kosningasjónvarp eða þetta þá mun þetta hafa áhrif.“

Elísabet segir sínar hugmyndir hafa áhrif á aðra frambjóðendur og þó svo hún segi ekki að hennar tími muni koma muni hennar rödd hljóma. Hún gagnrýnir skort á umfjöllun og umræðu um ákveðinn hóp frambjóðenda.

„Það er ekki fyrr en það koma einhverjir svona „forsetalegir“ frambjóðendur og núna gengur leikurinn út á að það verði tveir eftir. Forsetakosningar er gömul alþýðuskemmtun, 10 þúsund ára gömul, gamalt hanaat. Þá komu gömlu karlarnir með gamla hanann og ungu mennirnir komu með sinn hana og svo voru þeir látnir slást og sá sem átti hanann [sem vann] varð leiðtogi hópsins.“

Elísabet vill hvetja fólk til að „spila sinn eigin fótbolta“ og hlusta á eigin rödd. Eins lofar hún kjósendum sem setja X við Elísabet að bjölluhljómur muni heyrast af himnum og glimmerregn muni falla yfir þá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert