„Algjörlega tilbúin“ í kosningabandalag

Katrín Jakobsdóttir formaður V G
Katrín Jakobsdóttir formaður V G mbl.is/Árni Sæberg

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, segist vera „algjörlega tilbúin“ að ræða kosningabandalag við stjórnarandstöðuflokkana fyrir komandi kosningar. Segir hún að það væri að gagni fyrir kjósendur að vita ekki bara fyrir hvað þeirra flokkur stendur, heldur einnig að hverju þeir gangi varðandi mögulega samstarfsaðila eftir kosningar. Þetta kom fram í viðtali við Katrínu í þættinum Á Sprengisandi í dag.

Katrín var spurð út í fylgisaukningu Vinstri grænna undanfarið og sagði hún að pólitískar línur væru að skerpast  þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefði færst til hægri og vinstra fylgi að færast til Vinstri grænna. Það væri aftur á móti miðjan sem ætti erfitt uppdráttar. Nefndi hún Samfylkinguna í því samhengi og sagði flokkinn ekki gera sér grein fyrir því hvort hann ætti að sækja fylgi á vinstri vænginn eða inn á miðjuna. Píratar stæðu aftur á móti skýrt fyrir ákveðna andstöðu gegn kerfið og sagði Katrín að það hefði gengið vel hjá þeim.

Misskiptingin í þjóðfélaginu er það sem mun vera stóra mál Vinstri grænna í komandi kosningum að sögn Katrínar, en hún sagði að í heiminum væri ríkasta 1% alltaf að eignast meira og meira og hér á landi ætti ríkustu 10% um tvo þriðju hluta allra eigna. „Þetta verður okkar stóra mál í kosningunum,“ sagði Katrín.

Páll Magnússon, þáttarstjórnandi, benti á að miðað við niðurstöðu nýjustu könnunar gætu Vinstri grænir myndað tveggja flokka stjórn með Pírötum eða Sjálfstæðisflokki. Spurði hann Katrínu hvorn kostinn henni litist betur á. Svaraði hún því til að Sjálfstæðisflokkurinn væri á hinum endanum á hinu pólitíska litrófi við sinn flokk og að nýleg ummæli formanns Sjálfstæðisflokksins um að hann vilji berjast gegn kerfisbreytingum sýni Ginnungagap milli flokkanna. Sagði hún Vinstri græna eiga meiri samleið með stjórnarandstöðunni og bætti hún við að ef stjórnarandstaðan næði meirihluta í kosningum bæri henni að vinna saman. Sagði hún Vinstri græna hafa samþykkt að gefa út fyrir fram að þeir vilji vinna saman með núverandi andstöðu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert