Tíu hafa skilað inn undirskriftum

Bessastaðir.
Bessastaðir. mbl.is/Ómar Óskarsson

Tíu forsetaframbjóðendur hafa skilað inn listum með meðmælendum til yfirkjörstjórnar í  norðausturkjördæmi.

Þeir eru:  Andri Snær Magnason, Ástþór Magnússon, Davíð Oddsson, Elísabet Jökulsdóttir, Guðni Th. Jóhannesson, Guðrún Margrét Pálsdóttir, Halla Tómasdóttir, Hildur Þórðardóttir, Magnús Ingberg Jónsson og Sturla Jónsson.

Af þessum tíu hafa átta skilað listum með nægilegum fjölda undirskrifta. Þeir tveir sem enn eru að safna undirskriftum eru Elísabet og Magnús Ingiberg.

Þrír frambjóðendur hafa ekki skilað undirskriftum meðmælenda til yfirkjörstjórnarinnar, eða þeir Baldur Ágústsson, Benedikt Kristján Mewes og Magnús Ingi Magnússon.

Elísabet Jökulsdóttir er enn að safna undirskriftum.
Elísabet Jökulsdóttir er enn að safna undirskriftum. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Tvennt ógildir undirskrift

„Við munum setjast yfir þetta og klára að vinna úr þessum listum. Finna út hvort ekki sé allt í góðu og hvort eitthvað vantar upp á,“ segir Gestur Jónsson, oddviti yfirkjörstjórnar í Norðausturkjördæmi. Annars vegar þarf að uppfylla skilyrði um kjörgengi og hins vegar að menn hafi ekki skrifað undir nema hjá einum frambjóðanda. Það tvennt getur ógilt undirskrift meðmælanda.

Frambjóðendur hafa frest þangað til seinnipartinn á fimmtudag til að skila sínum listum. „Við stefnum að því að gefa út vottorð til frambjóðenda í síðasta lagi um hádegi á föstudag,“ segir Gestur.

Hver frambjóðandi þarf að hafa meðmæli minnst 1.500 kosningabærra manna, en mest 3.000, sem skiptast mismunandi eftir landsfjórðungum.

Yfirkjörstjórnir annars staðar á landinu óskuðu eftir því að frambjóðendur skiluðu inn undirskriftum með meðmælendum síðastliðinn föstudag. Þeir hafa þó frest fram á næsta föstudag til að skila öllum þeim undirskriftum sem þeim ber að skila til að framboðið sé gilt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert