Má forseti afsala sér forsetalaunum?

Bessastaðir.
Bessastaðir. mbl.is/Ómar Óskarsson

Um helgina sagði Davíð Oddsson, forsetaframbjóðandi og ritstjóri Morgunblaðsins, að hann hygðist afsala sér forsetalaunum yrði hann kosinn forseti. Í níundu grein stjórnarskrárinnar er kveðið á um að laun forseta skuli ákveðin með lögum og óheimilt sé að lækka þær greiðslur á kjörtímabili hans. En hvað þýðir þessi grein nákvæmlega og bannar hún forseta að afsala sér forsetalaunum?

Björg Thorarensen, prófessor í stjórnskipunarrétti við lagadeild Háskóla Íslands, segir lögin vera til að vernda forseta fyrir pólitískum afskiptum framkvæmdavaldsins og að í fljótu bragði sjái hún ekkert í þessu ákvæði sem hindri að hann afsali sér launum. Það sé hans persónulega ákvörðun.

Í umfjöllun Kjarnans í dag var haft eftir Gunnari Björnssyni, skrifstofustjóra Kjara- og mannauðssýslu ríkisins hjá fjármálaráðuneytinu, að ekki væri einfalt fyrir embættismenn að afsala sér launum. Þau væru gjald fyrir vinnu sem viðkomandi ætti að skila. Haft ef eftir honum að ríkinu beri að greiða embættismönnum laun sem ákveðin séu í lögum. Það sé bundið í lög og stjórn­ar­skrá.  

Í samtali við mbl.is segir Björg að menn væru í raun sviptir ákvörðunarvaldi ef þeir gætu ekki afsalað sér launum. Hún tekur þó fram að málið sé mjög óvenjulegt, en þó virðist vera fordæmi fyrir hendi þegar Ögmundur Jónasson afsalaði sér ráðherralaunum.

Davíð Oddsson ritstjóri Morgunblaðsins og forsetaframbjóðandi.
Davíð Oddsson ritstjóri Morgunblaðsins og forsetaframbjóðandi. mbl.is/Golli

Bendir hún á skýringar með frumvarpi til laga um stjórnarskrá Íslands frá árinu 1944, en þar kemur sérstaklega fram að ákvæði í 9. grein stjórnarskrárinnar sé til að vernda forsetann pólitískum afskiptum. „En ákvæðið miðar að því að hindra að fjárhagslegum þvingunarráðum verði beitt gegn forseta eða Alþingi eftir á reyni með þessum hætti að ná sér niðri á forseta. Með fyrirmælunum er einungis verndaður réttur forseta til sömu krónutölu og hann í upphafi hafði, en engan veginn tryggt að kaupmáttur krónunnar haldist óbreyttur,“ segir í skýringum með lögunum [bls 13].

Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna, afsalaði sér ráðherralaunum sínum þegar hann tók við embætti heilbrigðisráðherra árið 2009 sem og þegar hann varð innanríkisráðherra árið 2010. Þáði hann á þeim tíma þingfararkaup sem eru þau laun sem þingmenn fá. Í frétt Rúv kemur fram að fréttastofan hafi fengið það staðfest að engar athugasemdir hafi verið gerðar af hálfu ríkisins vegna þeirrar ákvörðunar Ögmundar.

Í lögum um laun forseta kemur fram að kjararáð ákveði laun hans og að allur útlagður kostnaður greiðist af ríkinu. Í lögum um kjararáð kemur svo fram að fullskipað kjararáð ákveði laun forseta. mbl.is hefur óskað eftir upplýsingum frá fjármálaráðuneytinu um það hvaða lög það séu sem komi í veg fyrir að embættismenn megi afsala sér launum sínum, en svar hafði ekki borist þegar fréttin var skrifuð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert