Á gott með að fylla fólk af krafti

Halla Tómasdóttir var í beinni útsendingu hjá Nova í dag.
Halla Tómasdóttir var í beinni útsendingu hjá Nova í dag. Ljósmynd/Aðsend

Forsetaframbjóðandinn Halla Tómasdóttir sat fyrir svörum á Facebook-síðu Nova í dag, rétt eins og Guðni Th. Jóhannesson og Davíð Oddsson hafa áður gert.

Fjölmargar spurningar bárust og svaraði Halla þeim skilmerkilega. „Ég held að mikilvægasta hlutverk forseta sé að sætta og sameina og fá okkur til þess að skilja að við erum öll í sama liði. Það lið heitir Ísland og við þurfum að minna okkur á það,“ sagði Halla.

Hún var spurð hvers vegna hún telji að hún geti sinnt embætti forseta Íslands vel. „Ég held að lykilástæðan fyrir því að ég get gert þetta vel er að ég á gott með að leiða fólk saman, sætta sjónarmið, fylla fólk af krafti og bjartsýni og mála framtíðarsýn og leiða vegferð, byggða á grunni góðra gilda. Þannig forseti vil ég vera,“ svaraði hún.

Uppáhaldsbók Höllu er Sjálfstætt fólk eftir Halldór Laxness. „Enda er aðalpersónan þar seinna nafn sonar okkar, Tómasar Bjarts,“ sagði Halla og nefndi Auði Jónsdóttur, sem uppáhalds íslenska höfundinn sinn.

Guðmundur Arnar Guðmundsson, markaðsstjóri Nova, segir að mjög vel hafi tekist til í dag. „Útsendingin í dag gekk mjög vel með Höllu og var það viðbúið þar sem að áhugi kjósenda kviknaði greinilega í byrjun með Davíð og svo Guðna.“

Aðspurður segist hann vona að allir forsetaframbjóðendurnir vilji taka þátt í útsendingum Nova. „Þetta hefur mælst alveg svakalega vel fyrir og það hafa komið mikið af spurningum. Frambjóðendurnir eru kannski að opna sig á annan hátt með því að svara spurningum frá almenningi en ekki fjölmiðlum. Okkar von er því sú að kjósendur þekki jafnvel sinn frambjóðanda örlítið betur þegar farið er inn í kjörklefann,“ segir Guðmundur.

Hildur Þórðardóttir næst í röðinni 

Hildur [Þórðardóttir]verður hjá okkur á mánudaginn, Andri Snær [Magnason]á þriðjudaginn og Ástþór Magnússon á fimmtudaginn. Við hjá Nova erum í skýjunum með viðtökurnar á þessu nýja fyrirkomulagi og hvetjum alla til að taka þátt og spyrja frambjóðendurna spjörunum úr.“

Hér er hægt að fylgjast með framboði Höllu á Facebook.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert