Ísland fær ekki þýskan forseta

Benedikt Kristján Mewes verður ekki forseti Íslands. Það var orðið ljóst fyrr í vikunni þegar mbl.is tók hann tali utan við Hallgrímskirkju, því þá hafði hann aðeins fengið 100 undirskriftir af þeim 1.500 sem nauðsynlegar eru til að komast á kjörseðilinn.

Benedikt er þó enn í framboði, alveg þangað til kjörstjórn tilkynnir um annað.

„Ég vildi ekki draga framboð mitt til baka því ég vildi sjá hversu langt ég myndi ná. Svo kom í ljós síðastliðinn föstudag að ég væri ekki ennþá í leiknum. Samt er ég bara ennþá í framboði, mér þykir nefnilega mjög vænt um þetta land, um fólkið og framtíðina og ég vildi ekki að fólk yrði fyrir vonbrigðum yfir að ég drægi framboð mitt til baka og segði bara „Ég er hættur“. Það er ekki í boði hjá mér og ég verð að halda áfram þar til allt hitt hrynur saman og ég er bara dottinn út.“

Meiri Íslendingur en Þjóðverji

Benedikt er þýskur en hefur verið búsettur hér á landi frá árinu 2001 og er íslenskur ríkisborgari.

„Mér datt einu sinni í hug að fljúga til Íslands af því að ég vissi svo lítið um þetta land. Svo kom ég hingað í fyrsta skipti fyrir 20 árum síðan árið 1996. Svo fannst mér alltaf að ég þyrfti að koma aftur og aftur og aftur að kynna mér landið aðeins betur og svo hætti ég allt í einu við og sagði: „Nú skal ég bara loksins flytja til Íslands“.“

Hann segist mun frekar vera Íslendingur en Þjóðverji. Hann kunni að meta einfaldleikann, sem sé ríkari í lífinu hér en í Þýskalandi, auk þess sem hann er samkynhneigður og upplifir minni fordóma hér. „Þó við búum á þessari litlu eyju þá er frelsi okkar miklu meira en annars staðar.“

Tjáir sig ekki eins og Andri eða Ástþór

Benedikt hefði orðið fyrsti opinberlega samkynhneigði forseti Íslands, ef ekki sá fyrsti í heimi, og hann segist einna helst hafa viljað beita sér fyrir jafnréttismálum, kvenréttindum og gegn einelti. Hann vildi sameina fólkið og ríkisstjórnina og horfa til framtíðar fremur en aftur til gamla tímans.

„Ég get ekki tjáð mig eins og Andri Snær Magnússon eða Ástþór Magnússon, sem er alltaf að rífa kjaft - aðeins, en það er allt í lagi. Það er erfitt fyrir mig að tjá mig á lögfræðilegan hátt eða menntaðan hátt en ég vil samt bara að fólk skilji hvað ég er að meina. Ég held að það sé alveg sama hvort ég myndi tala íslensku, ensku eða þýsku. Ef þú sýnir þennan kærleika og vilt koma þínu á framfæri þá skilur fólk með augum og hjarta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert