Fékk bréfið í morgun og íhugar að kæra

Í morgun fékk Magnús Ingberg Jónsson bréf þess efnis að ónægar undirskriftir hefðu borist kjörstjórn vegna framboðs hans til forseta Íslands. Því verður nafn hans ekki á kjörseðlinum þann 25. júní. Magnús átti von á þessum fregnum, hann vantaði um 300 undirskriftir upp á, en hann er ósáttur við framkvæmd og upplýsingagjöf tengda undirskriftalistunum og íhugar að leita réttar síns.

Spurður um ástæður framboðsins segir Magnús að hann eigi ýmis hugðarefni sem hann hafi viljað koma á framfæri.

„Ég hef aðeins reynt fyrir mér í pólitíkinni og séð að hún er ekkert sérstaklega skemmtileg. Ég hef ákveðnar skoðanir á ákveðnum hlutum sem ég vil sjá breytingu á. Ég vil sjá verðtrygginguna fara og ég vil sjá lánasamsetninguna öðruvísi, að það sé veð í húsunum en ekki fólkinu í húsunum.“

Magnús segist þó ekki hafa áhyggjur af því að fá ekki að sjá nafn sitt á kjörseðlinum. Hann hafi lent í ýmsu um ævina og oft séð það verra.

„Þetta er ekkert áfall, þetta er bara eitthvað sem maður þarf að takast á við.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert