Hrifinn af norræna módelinu

Andri Snær Magnason forsetaframbjóðandi.
Andri Snær Magnason forsetaframbjóðandi. mbl.is/Golli

Andri Snær telur mikilvægt að forsetinn setji sér siðareglur. Þetta kom meðal annars fram þegar hann svaraði spurningum áhorfenda í beinni útsendingu á Facebook-síðu Nova í dag. 

Andri var spurður um margt. Áhorfendur fengu meðal annars að vita að hann drekkur kók frekar en Pepsi, hann heldur með Liverpool og Wolverhampton í ensku deildinni og uppáhaldsmaturinn hans er lambakjöt og sushi.

Aðspurður hvaða bíl forsetinn ætti að kaupa við endurnýjun á bílakosti, sagði hann besta kostinn vera Teslu. Í framhaldinu sagðist hann vilja að Íslendingar stefndu að rafbílavæðingu landsins á næstu fjórum árum.

Forsetinn getur sett mál á dagskrá

Spurður hvort framboð hans ætti meira skylt við stjórnmál almennt sagði Andri: „Ég tel að forseti Íslands eigi að hafa skýra sýn. Jafnréttismál eru til dæmis ekki pólitísk. Búið er að setja öll lög sem þarf en þau hafa ekki skilað sér inn í samfélagið. Forsetinn getur beitt sér og stuðlað að hugarfarsbreytingu í samfélaginu.“

Hann sagðist vilja beita sér gegn kynbundnum launamun. „Einnig mál sem snúa að kynbundnu ofbeldi. Það er skýrt mál sem forsetinn á að halda á lofti,“ sagði Andri.

Þrjár bestu hljómsveitir tónlistarsögunnar sagði Andri vera Pixies, sem að hans sögn læknuðu hann af slæmu tímabili í tónlistarsögunni, Múm sem hann sagði frábæra hljómsveit og 808 State.

Hann segist alltaf hafa verið landlaus í pólitík, spurður hvaða stefnu hann aðhyllist í stjórnmálum. „Ég hef verið hlynntur norræna módelinu. Ég er samt líka hlynntur því að menn geti fengið hugmyndir og stofnað sín fyrirtæki og notið góðs af sínum ávinningi. Ég tel líka að hið opinbera geti tekið þátt í nýsköpun, ég hef tekið þátt í nýsköpun í skólastarfi en ég hef líka tekið þátt í nýsköpun hjá einkafyrirtækjum og persónum. Ég aðhyllist þetta blandaða hagkerfi sem Norðurlöndin hafa valið sér.“

Hér má sjá viðtalið í heild sinni:

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert