Íslensku forsetaframbjóðendurnir hrifnir af Bernie Sanders

Úr sjónvarpssal. Þau Andri, Davíð, Guðni og Halla voru fyrst …
Úr sjónvarpssal. Þau Andri, Davíð, Guðni og Halla voru fyrst til svara. mbl.is/Árni Sæberg

Hvor yrði fyrir valinu, Hillary Clinton eða Donald Trump, ef íslensku forsetaefnin væru bandarískir kjósendur að velja sér forseta?

Þessi spurning var á meðal þeirra sem allir íslensku forsetaframbjóðendurnir fengu í tvískiptum kappræðum Ríkisútvarpsins. Enginn nefndi Donald Trump en sex frambjóðendur nefndu Bernie Sanders áður en þau ýmist kusu að skila auðu eða styðja Clinton.

Fyrri til svara voru þau Halla Tómasdóttir, Andri Snær Magnason, Guðni Th. Jóhannesson og Davíð Oddsson.

Davíð sagðist myndu kjósa Clinton, enda þekkti hann hana. Hann sagði að sér líkaði ekki sumt það sem Trump hefði fram að færa þótt eflaust væri þar einnig eitthvað jákvætt.

Guðni svaraði „Hillary“, afdráttarlaust.  Halla kvaðst hafa verið „smá skotin í Bernie [Sanders]“. Hún myndi kjósa Clinton og gæti ekki hugsað sér að kjósa Trump. Andri kvaðst einnig hafa verið að vonast eftir að Bernie hlyti brautargengi sem framboðsefni Demókrataflokksins en að hann myndi kjósa Clinton, tvímælalaust.

Bernie Sanders hefur náð að heilla íslensku forsetaframbjóðendurna.
Bernie Sanders hefur náð að heilla íslensku forsetaframbjóðendurna. AFP

Í seinni hluta þáttarins voru þau Ástþór Magnússon, Elísabet Jökulsdóttir, Guðrún Margrét Pálsdóttir, Hildur Þórðardóttir og Sturla Jónsson beðin um að velja á milli þeirra Trump og Clinton.

Ástþór spurði hins vegar út í aðra forsetaframbjóðendur.

„Getur verið að það sé sama vandamál þarna og á Íslandi að einum sé lyft upp meira en öðrum?“ spurði frambjóðandinn og benti á að fæstir þekktu einu sinni nöfn frambjóðenda minni flokka í Bandaríkjunum sem þó vissulega eru til staðar. „Ég held að þetta sé svarið, að það komi þarna í ljós að það er galli í lýðræðinu.“ Sagðist hann því myndu skila auðu.

Elísabet var kjarnyrtari og sagði að af tvennu illu myndi hún kjósa Clinton. Guðrún sagðist hafa getað hugsað sér að kjósa Bernie Sanders en að öðrum kosti myndi hún skila auðu.

„Ég hefði kosið Bernie,“ sagði Hildur. „Hann er maður fólksins eins og ég.“ Hún sagði að í upphafi hefði henni þó litist vel á Clinton og því myndi hún kjósa hana.

Líkt og þær Guðrún og Hildur kvaðst Sturla einnig hafa viljað sjá Sanders í forsetaembættinu og að því myndi hann skila auðu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert