Halla og Hera syngja sama sönginn

Söngkonan Hera Björk er einn fjöldamargra stuðningsmanna Höllu Tómasdóttur sem viðstaddir eru kosningavöku hennar í Bryggjunni brugghúsi. Hera segist vera dyggur stuðningsmaður Höllu og hrifin af stefnumálum hennar og er virkilega vel stemmd fyrir kvöldinu. „Það má kannski segja að við Halla syngjum sama sönginn,“ segir Hera, ein ástsælasta söngkona þjóðarinnar, í samtali við mbl.is.

Hera kveðst ætla að vera á kosningavökunni eins lengi og gleðin er við völd og tiltölulega mjótt er á munum en Halla mælist með næsthæst fylgi á eftir Guðna Th. „Já ef þetta ætlar að verða svona spennandi þá er maður sko ekki að fara neitt,“ segir Hera. 

Aðrir stuðningsmenn Höllu hafa einnig trú á að kosningarnar verði meira spennandi en gert var ráð fyrir í skoðanakönnunum, sérstaklega nú eftir að fyrstu tölur hafa verið birtar.

Halla Tómasdóttir forsetaframbjóðandi.
Halla Tómasdóttir forsetaframbjóðandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert