Fékk forsetann í happdrætti

Forsetahjónin væntanlegu, Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid.
Forsetahjónin væntanlegu, Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eliza Reid verður sjötta forsetafrú Íslands þegar eiginmaður hennar, Guðni Th. Jóhannesson, tekur við embætti forseta. 

Eliza fæddist árið 1976 i Ottawa í Kanada og er elst þriggja systkina, en hún á tvo yngri bræður. Faðir hennar er enskukennari við Carleton University og móðir hennar hefur verið heimavinnandi og starfað sem leikskólakennari. Eliza ólst að mestu upp á sveitabæ í nágrenni höfuðborgarinnar, en þangað flutti hún með fjölskyldu sinni 10 ára gömul.

Frétt mbl.is: Hver er þessi nýi forseti?

Vann Guðna í happdrætti

Eliza lauk BA-gráðu í alþjóðasamskiptum frá Háskólanum í Toronto og hélt þaðan til Englands í meistaranám í nútímasögu við Oxfordháskóla. Það var þar sem hún kynntist Guðna. Í viðtali við Toronto Star segir hún frá því hvernig hún vann Guðna í happdrætti á fjáröflunarsamkomu róðrarliðs við skólann, sem Guðni var hluti af. Fyrirkomulagið var á þann veg að gestir gátu keypt miða og sett í bolla, merkta liðsmönnum róðrarliðsins, í von um að vinna stefnumót með þeim. Eliza segist hafa keypt tíu miða og sett átta þeirra í bolla Guðna. „Ég setti þá ekki alla í vegna þess að ég hélt að ég kæmi þá út eins og eltihrellir.“

Guðni dró nafn Elizu úr bollanum og næsta kvöld fóru þau á sitt fyrsta stefnumót, á ítölskum veitingastað í Oxford sem Guðni bauð henni á. „Ég vissi hver hún var, þess vegna var kvöldverðurinn svona fínn. Annars hefði ég bara boðið henni í pylsuvagn eða eitthvað slíkt,“ skýtur Guðni inn í.

Eftir það varð ekki aftur snúið. Eliza lauk sagnfræðinámi sínu í Oxford og fylgdi Guðna, sem hélt í doktorsnám við Queen Mary University í Lundúnum. Ákváðu þau að flytja til Íslands að því loknu, þar sem Guðni átti dóttur hér á landi og vildi vera til staðar í uppeldinu. Eliza segir að upphaflega hafi þau ætlað sér að búa hér á landi í 10 ár og sjá svo til, en hér eru þau enn.

„Við náðum 10 árunum fyrir nokkrum árum og ég hef aldrei hugsað um að segja: „Allt í lagi, nú flytjum við.“ Við lifum góðu og hamingjuríku lífi hér og heimurinn minnkar með hverju árinu. Það er auðveldara að halda sambandi og eiga í samskiptum við fólk og Ísland er frábært land til að stofna fjölskyldu.“ Hafa þau nú verið gift í 12 ár, en þau gengu í hjónaband í Ashton í Kanada 2004. Eiga þau fjögur börn saman, þrjá drengi og stúlku, á aldrinum tveggja til átta ára.

Eliza ásamt eiginmanni sínum og tveimur börnum.
Eliza ásamt eiginmanni sínum og tveimur börnum. Ljósmynd/Facebooksíða framboðs Guðna

Ævintýramanneskja sem ferðast ein 

Eliza er mikil ævintýramanneskja og ferðalangur. Í viðtali við Fréttablaðið í apríl 2006 segir hún frá ferðabakteríunni, en á átjánda aldursári hélt hún ein síns liðs í ferðalag um Rússland og eftir að hafa lokið meistaragráðu fór hún ein í bakpokaferðalag um Evrópu. „Þegar ég hafði svo tekið ákvörðun um að flytja til Íslands með Guðna; án atvinnu og ótalandi tungumálið, fannst mér tilvalið að eyða fyrst öllum mínum sparnaði í viðamikið ferðalag og byrjaði á að bóka far með Síberíuhraðlestinni. Ég hafði séð ótrúlega heillandi myndir frá Úsbekistan og Kasakstan sem réðu úrslitum um að ég valdi að ferðast um Mið- og Suðaustur-Asíu.“

Þá skrifaði Eliza ferðasögu sína frá Vestur-Afríku í Morgunblaðið, en hún eyddi sjö vikum í álfunni og heimsótti Senegal, Gambíu, Malí, Búrkina Fasó, Benín, Tógó og Gana. „Ég vildi vera ein á ferð því ég hafði áður gert það og kann vel við frelsið sem felst í því að geta gert nákvæmlega það sem mér sýnist hverju sinni án þess að þurfa að taka tillit til óska annarra.“

Talar góða íslensku

Góð íslenskukunnátta Elizu hefur vakið athygli, en í viðtali Toronto Star segir hún að á heimilinu sé bæði töluð enska og íslenska. Þá hefur hún sótt íslenskukennslu, auk þess sem hún starfaði í sjoppunni á Landspítalanum skömmu eftir komuna til landsins, og í áðurnefndu viðtali við Fréttablaðið segir hún það hafa hjálpað sér mikið.

Utan afgreiðslunnar á spítalanum hefur hefur Eliza meðal annars starfað sem ritstjóri tímaritsins Icelandair Stopover og sem blaðamaður hjá Iceland Review og Reykjavik Grapevine, þar sem hún sá meðal annars um veitingahúsgagnrýni. Árið 2014 hleypti hún af stokkunum Iceland Writers Retreat, sem skipuleggur vinnustofur rithöfunda og menningarferðir, og er í Félagi kvenna í atvinnulífinu. Þá hefur hún unnið sjálfboðastörf hjá Rauða krossinum og sungið í Mótettukór Hallgrímskirkju.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert