Fengu fleiri undirskriftir en atkvæði

Frambjóðendur í beinni útsendingu í RÚV eftir að fyrstu tölur …
Frambjóðendur í beinni útsendingu í RÚV eftir að fyrstu tölur voru lesnar upp. mbl.is/Árni Sæberg

Fjórir forsetaframbjóðendur fengu færri atkvæði í kosningunum í gær en undirskriftir á meðmælendalistum sínum.

Samkvæmt stjórnarskránni skal forsetaefni hafa meðmæli minnst 1.500 kosn­ing­ar­bærra manna og mest 3.000.

Þau Ástþór Magnússon, Elísabet Jökulsdóttir, Guðrún Margrét Pálsdóttir og Hildur Þórðardóttir fengu öll fleiri undirskriftir á meðmælendalistunum, sem þau skiluðu til innanríkisráðuneytisins um miðjan maímánuð, en greidd atkvæði í kosningunum í gær.

Ástþór safnaði tæplega fjórum undirskriftum fyrir hvert atkvæði sem hann fékk, en alls voru þau 615 talsins, eða 0,3% greiddra atkvæða.

Elísabet fékk um 1,4 undirskriftir fyrir hvert greitt atkvæði. Atkvæðin hennar voru 1.280 talsins.

Þá fékk Guðrún Margrét 477 atkvæði. Það þýðir að hún safnaði rúmlega þremur undirskriftum fyrir hvert atkvæði.

Hlutfallið var óhagstæðast hjá Hildi Þórðardóttur en hún safnaði ríflega fimm undirskriftum fyrir hvert greitt atkvæði. Alls hlaut hún 294 atkvæði og er hún sá for­setafram­bjóðandi sem notið hef­ur minnst fylg­is í for­seta­kosn­ing­um í sögu lýðveld­is­ins.

Allt aðra sögu er að segja af hinum fimm frambjóðendunum. Sem dæmi má nefna að Guðni Th. Jóhannesson, sigurvegari kosninganna, fékk 0,04 undirskriftir fyrir hvert greitt atkvæði. Raunar hlaut hann tæplega 24 atkvæði fyrir hverja undirskrift sem hann safnaði. Alls hlaut Guðni 71.356 atkvæði.

Frétt mbl.is: Hildur með fæst atkvæði sögunnar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert