Mikilvæg rödd kristninnar

Guðrún Margrét Pálsdóttir hlaut 0,3% fylgi í kosningunum.
Guðrún Margrét Pálsdóttir hlaut 0,3% fylgi í kosningunum. mbl.is/ Eggert Jóhannesson

Guðrún Margrét Pálsdóttir er glöð yfir að hafa boðið sig fram til forseta og kveðst ánægð með niðurstöðuna. „Það var búið að vara mig við að ég væri að stökkva út í ótrúlega djúpa hákarlalaug,“ segir Guðrún í samtali við mbl.is. „Ég bara vissi að ég varð að gera þetta og ég fann að ég átti að gera þetta,“ segir Guðrún. Ekki hafi annað komið til greina en að hlýða því en Guðrún segist hafa verið mikilvæg rödd kristninnar í landinu. 

„Ég held að Guðni verði ágætur forseti, ég vona bara að það náist sátt um hann og það skiptir máli,“ segir Guðrún um skoðun sína á því að nýkjörinn forseti standi utan trúfélaga. „Ég hugsaði þetta alltaf þannig að hver sem nær kjöri, þá er mikilvægast að við sættum okkur við það og við verðum sameinuð sem þjóð á bak við þann forseta sem verður kjörinn,“ segir Guðrún. Guðni var þó ekki fyrsta val Guðrúnar en hún segist hefðu kosið Höllu hefði hún sjálf ekki verið í framboði.

Fordómar í garð trúar

Guðrún telur málstað sinn hafa notið nokkurs hljómgrunns en þó ekki hjá öllum. „Það hafa oft verið fordómar gagnvart trúuðu fólki, margir líta á þetta sem einkamál og prívat og vilja ekki deila,“ segir Guðrún. „Þess vegna held ég að það hafi skipt máli að ég talaði út.“

Hún hefur heyrt dæmi þess að einstaklingar, sem vel leist á framboð hennar, hafi ekki þorað að greiða henni atkvæði af ótta við umræðuna um hvern fólk kaus. Þeim sem ekki eru opinskátt trúaðir þyki óþægilegt að vera spurðir út í hverjum þeir greiddu atkvæði og þeir litnir hornauga fyrir að viðurkenna stuðning við framboð á trúarlegum nótum.

Hvergi hætt

Guðrún segir niðurstöður kosninganna ekki vera vonbrigði. „Ég er bara mjög glöð í rauninni að þurfa ekki að vera forseti,“ segir Guðrún en hún telur krafta sína nýtast betur á öðrum vettvangi. Það var aldrei draumur Guðrúnar að verða forseti en hún segir baráttuna hafa komið sjónarmiðum sínum á framfæri og gefið sér tækifæri til að vinna áfram með þau. Hún hyggst þó ekki gefa kost á sér aftur í næstu forsetakosningum.

Guðrún ætlar að halda ótrauð áfram en meðal þess sem hún vill leggja fyrir sig er að hjálpa mæðrum sem berjast fyrir börnum sínum. Hún kveðst hafa margar hugmyndir og hugsjón og brennandi áhuga á velferð þjóðarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert