Opið fyrir framboð í prófkjöri Pírata

Birgitta Jónsdóttir, Píratakapteinn.
Birgitta Jónsdóttir, Píratakapteinn. mbl.is/Ómar Óskarsson

Píratar hafa opnað fyrir framboð í prófkjör til alþingiskosninga. Í öllum kjördæmum er hægt að gefa kost á sér, nema í Norðausturkjördæmi, þar sem listi Pírata hefur þegar verið staðfestur af félagsmönnum í kjördæminu. 

Prófkjörið var aðeins opið þeim pírötum sem hafa lögheimili í kjördæminu og gátu þeir einir tekið þátt og kosið á listann. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Pírötum.

Kjörgengir eru allir skráðir píratar sem uppfylla skilyrði um kjörgengi til alþingiskosninga. Kosningarétt í prófkjörum hafa skráðir píratar samkvæmt lögum Pírata, eða þeir píratar sem skráðir hafa verið í Pírata 30 dögum áður en kosningu lýkur.

Síðustu forvöð að skrá sig í flokkinn

Á höfuðborgarsvæðinu var opnað var fyrir framboð 4. júlí og lokað verður fyrir framboð 1. ágúst. Kosning hefst í rafrænu kosningakerfi Pírata þann 2. ágúst kl. 18 og stendur yfir til kl. 18 þann 12. ágúst. Síðustu forvöð til að skrá sig í Pírata til að öðlast kosningarétt í prófkjöri eru mánudaginn 11. júlí. Sömu dagsetningar gilda fyrir framboð í Suður- og Suðvesturkjördæmi.

Þeir sem hyggjast taka þátt í prófkjöri Pírata í Reykjavík suður, Reykjavík norður og Suðvesturkjördæmi skulu senda tilkynningu á netfangið frambod.hofudborg@piratar.is en fyrir framboð í Suðurkjördæmi skal senda tilkynningu á sudurkjordaemi@piratar.is.

Í Norðvesturkjördæmi var opnað fyrir framboð 16. júní og lokað verður fyrir framboð 7. ágúst. Kosning fer fram rafrænt þann 8. ágúst og stendur til 14. ágúst. Síðustu forvöð til að skrá sig í Pírata til að hafa kosningarétt í prófkjöri eru föstudaginn 15. júlí. Fyrir framboð í Norðvesturkjördæmi skal senda tilkynningu á: nvkjordaemi@piratar.is

Betra Ísland - Píratar

Þá hafa Píratar sett upp síðu á vef Betra Ísland þar sem óskað er eftir aðstoð almennings við að finna spurningar til að leggja fyrir frambjóðendur Pírata í prófkjörum á höfuðborgarsvæðinu. Þetta kemur einnig fram í tilkynningu frá flokknum.

„Stefnt er að því að halda sameiginlegt prófkjör fyrir þrjú kjördæmi (Reykjavík Norður, Reykjavík Suður og Suðvesturkjördæmi) og búist er við miklum fjölda frambjóðenda. Nú er í kosningu innan þessara félaga hvort notast skuli við dreifilista útfærslu í röðun á lista að prófkjöri loknu. Tólið á Betra Ísland er því sett upp til aðstoðar kjósendum til að vita hvar áherslur frambjóðenda liggja og hvernig áherslur þeirra ríma við skoðanir kjósandans,“ segir í tilkynningu.

Nánari upplýsingar um prófkjör Pírata má nálgast á vef flokksins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert