Þrír máta oddvitastól sjálfstæðismanna

Ásmundur Friðriksson, Ragnheiður Elín Árnadóttir og Elliði Vignisson hafa öll …
Ásmundur Friðriksson, Ragnheiður Elín Árnadóttir og Elliði Vignisson hafa öll verið orðuð við oddvitasæti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi. Samsett mynd

Stuðningsmenn Elliða Vignissonar, bæjarstjóra í Vestmannaeyjum, hleyptu lífi í kosningabaráttuna fyrir prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi með birtingu niðurstöðu skoðanakönnunar á mánudag.

Í könnuninni var mældur stuðningur á milli þeirra Elliða og Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra og núverandi oddvita Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu. Prófkjörið verður haldið í kjördæminu 10. september næstkomandi.

Frétt mbl.is: Elliði nýtur 61% stuðnings

Sögðust 61 prósent þeirra sem tóku afstöðu heldur vilja Elliða sem oddvita en Ragnheiði og 67,5 prósent aðspurðra sögðust vera líklegri til að kjósa Sjálfstæðisflokkinn ef Elliði leiddi listann í stað Ragnheiðar. Elliði hefur þó ekki staðfest framboð.

Ragnheiður Elín sagði í samtali við mbl.is að prófkjörið væri sú könnun sem mestu skipti og að hún hygðist gefa kost á sér í haust. 

Frétt mbl.is: Prófkjörið sú könnun sem skiptir mestu

Ásmundur Friðriksson mátar sig í oddvitastólnum

Morgunblaðið greindi frá því í morgun að þriðji frambjóðandinn, einnig reynslubolti í stjórnmálum, sé að máta sig í oddvitastólnum. 

Ásmundur Friðriksson, þingmaður og fyrrverandi bæjarstjóri í Garði, sagðist hafa fundið fyrir miklum stuðningi í kjördæminu á ferðalögum sínum undanfarnar vikur. Segist hann ætla að íhuga málið í um tvær vikur áður en hann gefur nokkuð út um stöðu sína fyrir prófkjörið í haust. Ásmundur var í þriðja sæti lista sjálfstæðismanna fyrir síðustu alþingiskosningar.

Hvað gera Unnur Brá og Vilhjálmur Árnason?

Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður allsherjarnefndar Alþingis, skipaði annað sæti lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi fyrir þingkosningarnar 2013.

Unnur Brá Konráðsdóttir.
Unnur Brá Konráðsdóttir. mbl.is

Heimildir mbl.is herma að hún komi til með að sækjast eftir sama sæti í prófkjörinu en fyrsta sætið freisti hennar þó mikið.

Frétt mbl.is: Unnur Brá íhugaði framboð

Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins á síðasta ári íhugaði hún t.a.m. að bjóða sig fram til varaformanns gegn Ólöfu Nordal innanríkisráðherra en ákvað síðar að gera það ekki þar sem þær Ólöf börðust fyrir sömu hugsjón, líkt og hún greindi landsfundargestum frá á fundinum.

Ekki náðist í Unni Brá við vinnslu fréttarinnar.

Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is

Vilhjálmur Árnason, sem skipaði fjórða sæti listans í síðustu þingkosningum þegar hann fór inn á þing í fyrsta sinn, hyggur á þriðja sætið í komandi prófkjöri.

Hann hafði ekki greint opinberlega frá því þegar mbl.is náði tali af honum í morgun en hann sagði kosningabaráttu sína vera í startholunum og hann hefði greint sínum nánustu frá ákvörðuninni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert