Vilji til að halda flokksþing í haust

Eygló Harðardóttir.
Eygló Harðardóttir. Mbl.is/Styrmir Kári

„Talsverð umræða hefur farið fram um það að rétt sé að halda flokksþing til þess að hægt verði að fara yfir stefnumálin fyrir kosningar,“ segir Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, í samtali við mbl.is spurð hvort hún telji rétt að boðað verði til flokksþings hjá Framsóknarflokknum fyrir næstu þingkosningar sem fyrirhugaðar eru í haust.

Eygló bendir á að komið hafi fram í máli forystumanna innan Framsóknarflokksins að slíkt væri æskilegt. Venjan sé að flokksþing fari fram að vori í aðdraganda þingkosninga en stefnt er að því nú að þingkosningar fari fram í haust. Framsóknarmenn hafi framkvæmt flest af því sem komið hafi fram í stefnu flokksins fyrir síðustu kosningar og því væri ekki óeðlilegt að farið yrði yfir stefnuna fyrir kosningarnar. Sú ákvörðun sé hins vegar í höndum miðstjórnar.

Landsstjórn Framsóknarflokksins kom saman til fundar í gær þar sem ákveðið var að boða til reglubundins haustfundar miðstjórnar flokksins í byrjun september en samkvæmt lögum skal boða reglubundan fundi miðstjórnar með 30 daga fyrirvara. Eygló er formaður landsstjórnar Framsóknarflokksins auk þess að gegna embætti ritara hans.

Miðstjórn hefur meðal annars það hlutverk að boða til flokksþings Framsóknarflokksins. Tekin er allajafna ákvörðun um flokksþing að vori á miðstjórnarfundi haustið á undan og því má búast við að ákveðið verði á fundinum í byrjun september hvenær næsta flokksþing fer fram hvort sem það verður næsta vor eða fyrir þingkosningarnar í haust.

Spurð hvort hún hafi tekið ákvörðun um mögulegt formannsframboð segir hún enga ákvörðun hafa verið tekna um slíkt enda liggi ekkert fyrir um það hvenær næsta flokksþing fari fram. Hún sé í forystu Framsóknarflokksins en hafi ekki ákveðið neitt um framhaldið í þeim efnum.

Hins vegar hafi verið bent á það að ekki væri óeðlilegt að forystunni yrði veitt tækifæri til þess að endurnýja umboð sitt fyrir kosningar. Flokksþing Framsóknarflokksins hafi yfirleitt verið haldin í aðdraganda kosninga þar sem farið hafi verið yfir stefnuna og forysta flokksins kosin.

Eygló ítrekar hins vegar að sú ákvörðun hvenær næsta flokksþing verði haldið sé alfarið í höndum miðstjórnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert