Yfirstandandi þing líklega lengt

Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra tilkynna fyrr …
Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra tilkynna fyrr á árinu að stefnt sé að þingkosningum í haust. mbl.is/Golli

Alþingi kemur saman á ný næstkomandi mánudag eftir sumarleyfi þingsins. Samkvæmt starfsáætlun mun þingið starfa dagana 15. ágúst til 2. september og alls eru áformaðir 13 þingfundir auk eldhúsdagsumræðna.

Þar með lýkur 145. löggjafarþinginu. Í lögum um þingsköp Alþingis segir að nýtt þing skuli koma saman annan þriðjudag í september. Samkvæmt því ætti nýtt löggjafarþing, 146. þing, að koma saman þriðjudaginn 13. september næstkomandi.

Forystumenn ríkisstjórnarflokkanna boðuðu í apríl sl. að efnt yrði til þingkosninga í haust, u.þ.b. hálfu ári áður en núverandi kjörtímabil rennur út. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur nefnt að til greina komi að kjósa í lok október, annaðhvort 22. eða 29. þess mánaðar. Leiðtogar stjórnarandstöðunnar hafa krafist þess opinberlega að kjördagur verði tilkynntur strax við upphaf þings í næstu viku. Þingrofsrétturinn er hjá forsætisráðherranum Sigurði Inga Jóhannssyni og hann hefur síðasta orðið.

Frumvarp til breytinga

„Ef kosið verður í haust er líklegast að yfirstandandi löggjafarþing, 145. þing, verði lengt, og sú lenging þá miðuð við áætlaðan kjördag, hvenær sem hann verður,“ segir Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis. „Að öðrum kosti yrði að setja nýtt löggjafarþing 13. september, með öllu því umstangi sem því fylgir. Þá féllu jafnframt niður öll þingmál sem nú liggja fyrir þinginu og ríkisstjórninni væri skylt að leggja fram fjárlagafrumvarp fyrir árið 2017 skv. stjórnarskránni. Ég held að allir vilji hafa þetta einfaldara. Það má því búast við að fram komi frumvarp fyrir lok ágústmánaðar um breytingu á þingsköpum til bráðabirgða þannig að ekki þurfi að hafa þingsetningu 13. sept. En með því frumvarpi yrði væntanlega að ákveða í raun hver kjördagurinn verður, hann fellur saman við lok löggjafarþingsins,“ segir Helgi.

„Hins vegar eru kosningar til Alþingis ekki formlega ákveðnar fyrr en með þingrofi. Verði kosið 22. eða 29. okt. verður það ekki formlega ákveðið fyrr en í fyrri hluta september eða um miðjan mánuðinn, því að ekki mega líða meira en 45 dagar frá útgáfu þingrofsbréfs þar til kosningar fara fram. Þetta er allt dálítið flókið fyrir venjulegt fólk að skilja, en svona eru reglur stjórnarskrár og þingskapa.“

Missa ekki lengur umboðið

En hvaða áhrif hefur þingrof? Þeirri spurningu svarar Árni Helgason, lögfræðingur á Vísindavefnum: „Þingrof hefur fyrst og fremst þau áhrif að boðað er til kosninga og þingstörfum lýkur fljótlega eftir að tilkynningin hefur verið lesin upp eða gefin út. Stundum olli þingrof því að þingmenn misstu umboð sitt fram að kosningum. Þannig var það til dæmis árið 1974, þegar þing var rofið 8. maí en kosningar fóru ekki fram fyrr en 30. júní sama ár og voru þingmenn umboðslausir þennan tíma. Því skapaðist nokkuð sérstakt ástand þar sem ekki hefði verið hægt að samþykkja lög með venjulegum hætti á þessu tímabili. Þessu var breytt árið 1991, þegar gerð var sú breyting á 24. gr. stjórnarskrárinnar að þingmenn haldi umboði sínu til kjördags. Ennfremur kemur þar fram að áður en 45 dagar eru liðnir frá því að tilkynnt var um þingrofið skuli boða til kosninga. Í forsetabréfi um þingrof kemur því dagsetning kosninganna fram enda fellur þá saman gildistaka þingrofs og kosning nýs þings.“

Alþingi var síðast rofið með bréfi í mars 2009, en þá var við völd minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna.

Þing rofið á kosningadag

Hinn 13. mars 2009 gaf Ólafur Ragnar Grímsson út svofellt forseta- bréf um þingrof og almennar kosningar til Alþingis: „Forseti Íslands gjörir kunnugt: Forsætisráðherra hefur tjáð mér að vegna þess mikla efnahagsáfalls, sem þjóðin hefur orðið fyrir, hafi þeir flokkar sem nú standa að ríkisstjórninni orðið ásáttir um við myndun hennar að efna sem fyrst til almennra alþingiskosninga.

Samkvæmt tillögu forsætisráðherra og með vísan til 24. gr. stjórn- arskrárinnar, nr. 33/1944, eins og henni var breytt með 5. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 56/1991, sbr. 21. gr. laga um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000, er með skírskotun til framanritaðs ákveðið að þing verði rofið 25. apríl 2009 og að almennar kosningar til Alþingis fari fram sama dag.“

Hið óvenjulega við þingrofið 2009, sem tilkynnt var 13. mars það ár, var að Alþingi starfaði fram til 17. apríl, þ.e. í meira en mánuð fram yfir útgáfu þingrofsboðskapar; það hafði ekki gerst áður. Nú var slíkt stjórnskipunarlega heimilt eftir 1991. Þingstörfum var því frestað aðeins rúmri viku fyrir kjördag 25. apríl 2009.

Til samanburðar má nefna að þingfundum 141. löggjafarþings 2013 var frestað 28. mars til loka kjörtímabils 27. apríl 2013, en þann dag var kosið til þings, og þingfundum 133. löggjafarþings 2007 var frestað frá 18. mars til loka kjörtímabils 12. maí 2007, en þann dag fóru alþingiskosningar fram.

„Þingrofið tekur nú gildi á kjördag og þess vegna má segja að hugtakið „þingrof“ sé svolítið misvísandi, það merkir nú bara ákvörðun kjördags. Birting þingrofs merkir ekki að þingstörfum ljúki, Alþingi tekur sjálfstæða ákvörðun um það hvenær þingstörfum lýkur fyrir áætlaðan kjördag,“ segir Helgi Bernódusson til útskýringar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert