Oddgeir Á. Ottesen sækist eftir 2.–3. sæti

Oddgeir Ágúst Ottesen hagfræðingur.
Oddgeir Ágúst Ottesen hagfræðingur. Ljósmynd/Oddgeir Ágúst Ottesen

Oddgeir Ágúst Ottesen hagfræðingur gefur kost á sér í 2.–3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi sem haldið verður 10. september. Þetta kemur fram í tilkynningu sem hann sendi fjölmiðlum í dag.

Oddgeir er búsettur í Hveragerði og hefur hann setið sem varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins á þessu kjörtímabili. Oddgeir rekur ráðgjafafyrirtækið Integra ráðgjöf sem veitt hefur ráðgjafaþjónustu á sviði hagfræði og fjármála. Auk þess hefur hann sinnt stundakennslu við Háskólann í Reykjavík.

Oddgeir situr í stjórn Íslenskra verðbréfa og hefur setið í stjórn efnahags- og viðskiptanefndar Sjálfstæðisflokksins. Í tilkynningu frá Oddgeiri segist hann berjast fyrir framgangi sjálfstæðisstefnunnar með heiðarleika og fagmennsku að leiðarljósi.

Markmið hans eru að vinna að bættum lífskjörum íbúa Suðurkjördæmis og landsins alls. Leggur hann jafnframt áherslu á skilvirkt viðskiptaumhverfi, ráðdeild í ríkisrekstri og lægri skatta. Hann vill lækka tekjuskatt einstaklinga sem og tryggingagjaldið.

„Skýrari leikreglur og hagkvæmt viðskiptaumhverfi er best til þess fallið að auka nýsköpun og hagkvæmni í bæði hefðbundnum og nýjum atvinnugreinum,“ segir í tilkynningunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert