Tekist á um oddvitasæti hjá ríkisstjórnarflokkunum

Þegar er ljóst að talsverðar breytignar verða á þingliði ríkisstjórnarflokkanna.
Þegar er ljóst að talsverðar breytignar verða á þingliði ríkisstjórnarflokkanna. mbl.is/Styrmir Kári

Fyrir liggur að þungavigtarfólk mun hverfa á braut úr þingflokkum núverandi stjórnarflokka, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins, eftir næstu þingkosningar óháð því hverjar niðurstöður kosninganna verða. Þannig tilkynnti Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra í gær að hann ætlaði ekki að gefa kost á sér í prófkjöri Sjálfstæðislokksins í Reykjavík, sem fram fer 3. september. Framboðsfrestur rann út í gær klukkan 16. Áður hafði Hanna Birna Kristjánsdóttir, fyrrverandi innanríkisráðherra, lýst því yfir að hún ætlaði ekki að gefa kost á sér til áframhaldandi þingmennsku.

Þau Hanna Birna og Illugi vermdu efstu sæti framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fyrir síðustu þingkosningar og því ljóst að sjálfstæðismenn þurfa að velja sér nýja oddvita fyrir kjördæmin. Við það bætist að Pétur H. Blöndal lést á síðasta ári en hann skipaði þriðja sætið á framboðslistanum fyrir kosningarnar 2013. Brynjar Níelsson var í fjórða sætinu og hyggst gefa áfram kost á sér. Hann stefnir á eitt af efstu sætunum.

Ólöf stefnir á fyrsta sætið

Ólöf Nordal, innanríkisráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, stefnir á fyrsta sætið á framboðslistanum en hún á ekki sæti á þingi. Þingmennirnir Guðlaugur Þór Þórðarson, Birgir Ármannsson og Sigríður Á. Andersen gefa áfram kost á sér. Guðlaugur stefnir á að skipa efsta sætið í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæminu og Birgir og Sigríður Á., sem tók við þingsæti Péturs H. Blöndal, stefna á sæti ofarlega á listanum. Þá stefnir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ritari Sjálfstæðisflokksins, á 3. sæti.

Alls lýstu 16 einstaklingar yfir framboði í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík Auk ofangreindra má nefna, að Hildi Sverrisdóttur, borgarfulltrúi, og Guðmund Franklin Jónsson, sem leiddi flokkinn Hægri græna.

Ólöf Nordal stefnir á fyrsta sætið á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í …
Ólöf Nordal stefnir á fyrsta sætið á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkur en hún á ekki sæti á þingi. mbl.is/Golli

Þrír þingmenn Framsóknarflokksins í Reykjavík ætla ekki að gefa áfram kost á sér til þingmennsku; Vigdís Hauksdóttir, Frosti Sigurjónsson og Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra. Fjórði þingmaður flokksins í höfuðborginni, Karl Garðarsson, hyggst hins vegar gefa kost á sér í efsta sætið í Reykjavíkurkjördæmi norður. Hann er nú annar þingmaður Framsóknarflokksins í Reykjavík suður.

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi, ætlar að reyna fyrir sér í Reykjavíkurkjördæmi norður og stefnir á fyrsta sætið og sama á við um Hauk Loga Karlsson lögfræðing. Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra stefnir á fyrsta sætið á framboðslista Framsóknarflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður. Valið verður í fimm efstu sætin á framboðslista Framsóknarflokksins í Reykjavík á tvöföldu kjördæmaþingi sem fram fer 27. ágúst.

Tekist verður á um oddvita sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi en þar er sótt að Ragnheiði Elínu Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, stefnir á fyrsta sætið og sama á við um Pál Magnússon, fyrrverandi útvarpsstjóra. Þá hefur Árni Johnsen, fyrrverandi þingmaður flokksins, lýst yfir framboði í eitt af efstu sætunum. Unnur Brá Konráðsdóttir og Vilhjálmur Árnason gefa áfram kost á sér. Unnur stefnir á 2. sætið og Vilhjálmur það þriðja. Prófkjörið fer fram 10. september.

Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, ætlar að hætta á þingi og Haraldur Benediksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi, vill leiða listann. Teitur Björn Einarsson, aðstoðarmaður fjármálaráðherra, vill einnig fylla skarð Einars. Þá hyggst Ragnheiður Ríkharðsdóttir láta af þingmennsku en aðrir þingmenn Suðvesturkjördæmis ætla að gefa áfram kost á sér. Framsóknarþingmennirnir Haraldur Einarsson og Páll Jóhann Pálsson gefa ekki áfram kost á sér. Ekki er vitað annað en að aðrir þingmenn flokksins gefi áfram kost á sér.

Ögmundur Jónasson gefur ekki áfram kost á sér fyrir VG.
Ögmundur Jónasson gefur ekki áfram kost á sér fyrir VG. mbl.is/Kristinn

Farið gegn tveimur oddvitum

Tekist verður á um oddvitasætið á framboðslista Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í Norðvesturkjördæmi vegna næstu þingkosninga. Flokkurinn fékk einn þingmann kjörinn í síðustu kosningum, Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, sem gefur áfram kost á sér sem oddviti framboðslistans. Það sæti vill einnig Bjarni Jónsson, formaður Svæðisfélags VG í Skagafirði. Þá gefur Lárus Ástmar Hannesson kost á sér í 1.-2. sæti og Rúnar Gíslason stefnir á 1.-3. sæti. Samanlagt gefa ellefu kost á sér í forvali um sex efstu sætin sem fram fer 31. ágúst til 5. september.

Framboðslisti VG í Norðausturkjördæmi liggur þegar fyrir, en valið var á hann með uppstillingu. Efstu þrjú sætin skipa þingmennirnir Steingrímur J. Sigfússon og Bjarkey Gunnarsdóttir og varaformaður flokksins, Björn Valur Gíslason. Uppstilling er einnig í öðrum kjördæmum. Einn þingmaður VG hættir, Ögmundur Jónasson, sem er eini þingmaður flokksins í Suðvesturkjördæmi. Ekki er vitað annað en að aðrir ætli að gefa áfram kost á sér.

Tveir þingmenn Samfylkingarinnar hætta, Kristján L. Möller og Katrín Júlíusdóttir. Ekki er vitað annað en að aðrir þingmenn flokksins ætli að gefa áfram kost á sér. Ólína Þorvarðardóttir fær mótframboð í Norðvesturkjördæmi, en hún tók við þingmennsku á kjörtímabilinu af Guðbjarti Hannessyni heitnum. Inga Björk Bjarnadóttir býður sig fram í 1.-2. sæti framboðslista flokksins.

Helmingur þingflokks hættir

Stillt verður upp á framboðslista Bjartrar framtíðar í öllum kjördæmum og stefnt að því að listanir liggi fyrir 10. september, þegar ársþing flokksins fer fram. Helmingur þingmanna flokksins gefur ekki kost á sér áfram; þau Guðmundur Steingrímsson, fyrrverandi flokksformaður, Brynhildur Pétursdóttir og Róbert Marshall. Hinir þrír hafa í hyggju að bjóða áfram fram krafta sína: Björt Ólafsdóttir, Óttarr Proppé og Páll Valur Björnsson.

Skoðanakannanir undanfarna mánuði hafa ekki verið Bjartri framtíð hliðhollar og hafa þær bent til þess að flokkurinn nái ekki lágmarksfylgi samkvæmt lögum til þess að fá fulltrúa kjörna á Alþingi. Það er 5%. Því er alls óvíst hvort einhverjir af þingmönnum Bjartrar framtíðar eigi afturkvæmt á þing.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert