Nauðsyn að boða til flokksþings

Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Eggert

Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, telur nauðsynlegt að halda flokksþing fyrir boðaðar þingkosningar í haust. Flokksþingið þurfi að setja línurnar fyrir kosningar og þá þurfi flokksforystan að endurnýja umboð sitt.

Þetta kom fram í máli Karls í útvarpsþættinum Vikulokunum á Rás 1 í morgun.

Karl sagði að boðað hefði verið til miðstjórnarfundar í byrjun næsta mánaðar og þá yrði væntanlega tekin ákvörðun um hvort haldið yrði floksþing.

„Ég yrði ekkert undrandi þótt að flokksþing yrði boðað. Mér finnst það eðlilegt sjálfum og hef sagt það mörgum sinnum. Ekki þá bara út af flokksforystunni, sem mér finnst reyndar að ætti að endurnýja umboð sitt og þurfi að gera það, heldur líka til að leggja línurnar fyrir kosningarnar,“ sagði Karl.

Til dæmis þyrfti að ákveða hvaða mál flokkurinn ætti að leggja áherslu á í kosningunum. 

„Við erum búin að standa við flest þau stóru mál sem við lofuðum fyrir síðustu kosningar. Við þurfum að setja línur fyrir þær kosningar sem eru framundan eftir aðeins tvo mánuði. Þannig að flokksþing er algjörlega nauðsynlegt fyrir það,“ sagði Karl.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert