Sigríður Ingibjörg sækist eftir 1. sæti

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir sækist eftir efsta sætinu.
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir sækist eftir efsta sætinu.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður velferðarnefndar Alþingis, sækist eftir 1. sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík í flokksvali sem fram fer 8.-10. september 2016.

Í framboðstilkynningu fjallar Sigríður sérstaklega um velferðarmálin sem hún segir að hafi átt hug sinn þau sjö ár sem hún hefur setið á Alþingi. Segir hún að mynda þurfi „nýja og betri ríkisstjórn“ eftir næstu kosningar og í þeirri ríkisstjórn bíði velferðarráðherra mikilvæg og krefjandi verkefni. Hún listar upp þau mál sem hún telur að sérstaklega þurfi að ráðast í: 

  • Klára uppbyggingu Landspítala við Hringbraut, auka fé til heilbrigðisþjónustu og taka alvöru skref í átt til gjaldfrjálsrar heilbrigðisþjónustu.
  • Hætta krónu á móti krónu skerðingum í almannatryggingum og hækka greiðslurnar.
  • Fjölga leiguíbúðum í nýja almenna íbúðakerfinu fyrir ungt fólk og tekjulága úr 2.000 í 5.000 á næstu fimm árum.
  • Bæta geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga.
  • Hækka greiðslur í fæðingarorlofi eftir þriggja ára frystingu og lengja það í 12 mánuði.
  • Fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Drátturinn á þeirri vinnu er okkur til skammar.
  • Vinna að víðtækri innleiðingu jafnlaunastaðals og jafnlaunavottunar.
  • Byggja fleiri hjúkrunarrými og bæta þjónustu við aldraða.
  • Meðhöndla fíkla og fanga eins og manneskjur.
  • Taka á móti fleiri flóttamönnum til samræmis við íbúafjölda og efnahag landsins.

„Við eigum að vera óhrædd við átök um grundvallarmál og vinna með samherjum okkar að nýrri  stjórnarskrá, uppboði á aflaheimildum, nýjum gjaldmiðli, rammaáætlun og markvissum aðgerðum í umhverfismálum. Deilur síðustu ára endurspegla hatramma hagsmunabaráttu þar sem venjulegt fólk hefur þurft að bjóða fjármagnseigendum byrginn. Valdahlutföllin eru hróplega ósanngjörn en með samstöðu og úthaldi mun okkur takast að skapa eitt samfélag fyrir alla.

Við erum komin út úr hruninu og margir hafa fært stórar fórnir til að forða ríkissjóði frá gjaldþroti. Nú er kominn tími til að byggja upp og fjárfesta í þágu almennings í landinu. Við verðum að klára uppbyggingu Landspítala, við verðum að efla skólana, við verðum að byggja miklu fleiri íbúðir á stöðum þar sem fólk vill búa, við verðum að auka stuðning við listgreinar, við verðum að fjárfesta í atvinnugreinum sem skapa skemmtileg og verðmæt störf, við verðum að leggja vegi og byggja upp gamla og nýja ferðamannastaði.  Þetta getum við gert ef við kjósum ríkisstjórn sem er tilbúin til að berjast gegn skattaskjólum og spillingu og fyrir réttlátri skiptingu arðsins af auðlindunum. Óbreytt ástand er ekki í boði,“ segir Sigríður í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert