Guðlaugur Þór vill 2. sætið

Guðlaugur Þór Þórðarson.
Guðlaugur Þór Þórðarson. Ljósmynd/Hákon Broder Lund

Guðlaugur Þór Þórðarson alþingismaður hefur ákveðið að gefa kost á sér í annað sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og þar með til þess að leiða framboðslista flokksins í öðru Reykjavíkurkjördæminu fyrir næstu þingkosningar. 

Fram kemur í framboðstilkynningu að á kjörtímabilinu hafi Guðlaugur Þór gegnt varaformennsku í fjárlaganefnd og varaformennsku þingflokks Sjálfstæðisflokksins. Hann gegni formennsku í þingmannanefnd Íslands og Evrópusambandsins og í Íslandsdeild þingmannanefnda EFTA og EES. Þá sé Guðlaugur varaformaður AECR, samtaka íhalds- og umbótaflokka í Evrópu.

Guðlaugur Þór leggur áherslu á að á komandi kjörtímabili verði þeim árangri sem náðst hefur í ríkisfjármálunum á undanförnum árum fylgt fast eftir og að agi, ráðdeild og langtímahugsun verði höfð að leiðarljósi. Þá telur hann brýnt að innleiða lausnir fyrir ungt fólk á húsnæðismarkaði ásamt því að hlúa betur að eldri borgurum og öryrkjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert