Bryndís Loftsdóttir vill 3. til 5. sæti

Bryndís Loftsdóttir gefur kost á sér í 3. til 5. …
Bryndís Loftsdóttir gefur kost á sér í 3. til 5. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi. mbl.is

Bryndís Loftsdóttir hjá Félagi íslenskra bókaútgefenda gefur kost á sér í 3. til 5. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi sem haldið verður 10. september.

Í tilkynningu kemur fram að Bryndís hafi gengið í Sjálfstæðisflokkinn árið 2005 og hafi á liðnum árum gegnt fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir flokkinn. Hún hafnaði í áttunda sæti í síðasta prófkjöri og hefur því verið varaþingmaður Suðvesturkjördæmis á yfirstandandi kjörtímabili.

Bryndís hefur skrifað leikhúsgagnrýni fyrir DV, hún situr í stjórn Miðstöðvar íslenskra bókmennta og gengir formennsku stjórnar Launasjóðs listamanna. Þá situr hún einnig í stjórn Bókmenntaborgar UNESCO hjá Reykjavíkurborg.

Þá kemur fram í tilkynningu að Bryndís sé vel að sér í menningu og listum og hafi verið ötull talsmaður íslenskra bóka, bæði hér á landi og erlendis. 

„Hún hefur séð um kynningar á íslenskri bókaútgáfu á bókamessum og bókmenntahátíðum erlendis, haldið utan um tölfræði íslenskrar bókaútgáfu og beitt sér sérstaklega fyrir framgangi íslenskrar barna- og ungmennabókaútgáfu. 

Bryndís lauk fullgildu leikaraprófi frá Academy of Live and Recorded Arts í London árið 1994. Hún er gift Arnbirni Ólafssyni, viðskiptafræðingi, og eiga þau saman þrjú börn,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert