Hámarkskostnaður mishár eftir kjördæmum

Hámarkskostnaður má mestur vera hjá þátttakendum í persónukjöri í sameiginlegum …
Hámarkskostnaður má mestur vera hjá þátttakendum í persónukjöri í sameiginlegum Reykjavíkurkjördæmum. mbl.is/Árni Sæberg

Frambjóðendur í Suðvesturkjördæmi mega eyða nærri helmingi hærri upphæð í kosningabaráttu sína en frambjóðendur í Norðvesturkjördæmi, samkvæmt leiðbeiningum sem Ríkisendurskoðun hefur gefið út fyrir frambjóðendur í persónukjöri í tengslum við alþingiskosningarnar 2016. Mestum fjármunum mega þeir þó eyða sem bjóða fram í sameiginlegum Reykjavíkurkjördæmum, eða tæplega 7,5 milljónum króna.

Samkvæmt leiðbeiningum Ríkisendurskoðunar má kostnaður fyrir hvern frambjóðanda að hámarki nema einni milljón króna að viðbættu álagi fyrir hvern íbúa sem er 18 ára og eldri og er með kosningarétt í þingkosningum á Íslandi.

Þetta felur í sér að hámarkskostnaður má mestur vera hjá hverjum frambjóðanda í sameiginlegum Reykjavíkurkjördæmum, eða alls 7.435.450 kr. Séu framboðslistar flokksins hins vegar aðskildir fyrir Reykjavík norður og suður nemur hámarkskostnaður hvers frambjóðanda í kringum 5,3 milljónum króna.

Lægstur er hámarkskostnaður frambjóðenda síðan í Norðvesturkjördæmi og nemur hann 3.593.000 kr. sem jafngildir 125 kr. á hvern íbúa. Hæstur hámarkskostnaður fyrir stakt kjördæmi er í Suðvesturkjördæmi, þar sem hann nemur 5.827.600 kr. eða 75 kr. á hvern íbúa.

Ríkisendurskoðun ítrekar einnig að frambjóðendum er ekki heimilt að taka á móti framlögum frá einstaklingi eða fyrirtæki sem nemur hærri fjárhæð en 400.000 kr. og að nöfn allra þeirra sem styrkja framboðið um meira en 200.000 kr. skal birta í reikningsskilum frambjóðanda og ber Ríkisendurskoðun að birta þær upplýsingar opinberlega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert