Steinunn Ýr vill 3. til 4. sæti

Steinunn Ýr
Steinunn Ýr Aðsend mynd

Steinunn Ýr Einarsdóttir, kennari og ritari kvennahreyfingar Samfylkingarinnar, sækist eftir þriðja til fjórða sæti í opnu prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík sem fer fram dagana 8. til 10. september næstkomandi.

Í tilkynningu sem Steinunn sendi fjölmiðlum kemur fram að hún sé fimm stúlkna móðir sem snemma hafi hafið afskipti af stjórnmálum. „Starfaði með Ungum jafnaðarmönnum um tíma en fann sig betur í grasrótinni og síðustu ár hefur hún einbeitt sér að jafnréttisbaráttu,“ segir í tilkynningu.

Kemur þar fram að hún hafi staðið fyrir alls kyns aktívisma tengdum femínisma og kynferðisofbeldi. „Í gegnum þá baráttu hóf hún að starfa með kvennahreyfingu Samfylkingarinnar og segir eðlilegt skref í framhaldi af því að bjóða sig fram einmitt núna.“

„Ég stend fyrir jöfnuð og jafnrétti og vil búa í samfélagi þar sem við gerum ráð fyrir að allir einstaklingar fái að blómstra óháð kringumstæðum, efnahag eða fjölskyldutengslum. Sé jöfnuður hafður að leiðarljósi endurspeglast það í allri stefnumótun. Ég legg áherslu á mannréttindi, femínisma, lýðræði og umhverfisvernd,“ er haft eftir henni í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert