Tengslin við fólkið mikilvæg

Bjarni Jónsson.
Bjarni Jónsson.

„Ég legg mikla áherslu á mikilvægi þess að traust og virðing ríki á milli fólks ef ná á árangri. Ég hef mikla reynslu af því að starfa með fólki á sveitarstjórnarstiginu úr ýmsum áttum sem hefur gengið mjög vel,“ segir Bjarni Jónsson, fiskifræðingur og frambjóðandi í forvali Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs í Norðvesturkjördæmi. Bjarni sækist eftir því að leiða framboðslista flokksins. Sama gerir Lilja Rafney Magnúsdóttir alþingismaður sem skipaði efsta sætið fyrir síðustu þingkosningar. Forvalið stendur til 5. september.

Bjarni er fæddur árið 1966 og ólst upp í Bjarnarhöfn á Snæfellsnesi til 15 ára aldurs er fjölskyldan fluttist að Hólum í Hjaltadal. Þar bjó hann til ársins 2010 þegar hann fluttist til Sauðárkróks. Eiginkona Bjarna er Izati Zahra og á hann eina dóttur af fyrra sambandi, Kristínu Kolku. Bjarni lauk BA-prófi í hagsögu með viðskiptafræði sem aukagrein frá Háskóla Íslands árið 1992 og meistaraprófi í fiskifræði og stærðfræðilegri tölfræði frá Oregon State University í Bandaríkjunum árið 1996. Rætur hans liggja að auki á Ströndum og í Húnavatnssýslum. Hann hefur starfað lengi í sveitarstjórnarmálum í Skagafirði og Norðurlandi vestra og gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir VG í gegnum tíðina.

„Stundum greinir fólk á í ákveðnum málum eins og gengur og þá er það bara þannig. Ég hef líka reynslu af því að það er oft hægt að semja um það sem út af stendur og einhenda sér síðan í verkefni sem hægt er að sameinast um. Þetta hefur verið kjarninn í mínu starfi. Ég hef getað unnið með öllum að góðum málum,“ segir Bjarni. Mörg mál séu þess eðlis að hægt sé að finna lendingu í þeim ef lögð er meiri áhersla á að finna hana.

Hissa á að hitta stjórnmálamann

Þess utan séu líka ýmis mál þess eðlis að tekist er á um þau. En oft sé of stutt í átakagírinn. Bjarni segist aðspurður annars leggja áherslu á öfluga og góða heilbrigðisþjónustu sem þjóni öllum landsmönnum óháð búsetu og efnahag. Styrkja þurfi almannaþjónustuna í landinu og bæta hag lífeyrisþega. Ekki sé boðlegt hvernig þeim málum sé fyrir komið í dag. Þá hafi hann sömuleiðis verið talsmaður samfélagsbanka í eigu almennings.

Samgöngumálin eru Bjarna enn fremur ofarlega í huga. Víða sé ekki boðið upp á boðlegar samgöngur þrátt fyrir batnandi hag ríkissjóðs og átaks sé þörf í þeim efnum. „Ég er enn fremur mikill landsbyggðarmaður og orðinn ansi þekktur fyrir að fylgja málum eftir. Ég hef oft sagt að maður verði að keyra vegina sem maður er að tala fyrir og hitta fólkið sem maður ætlar að vinna fyrir og það ætla ég að gera ef ég fæ til þess umboð.“

Bjarni hefur verið að ferðast um kjördæmið og hitta fólk að undanförnu og haft mikla ánægju af því að eigin sögn. Honum hafi alls staðar verið vel tekið. Það hafi vakið athygli hans hvað sumir voru hissa á að hitta stjórnmálamann. Þeir hafi haft á orði að þeir hefðu nú ekki séð mikið til slíkra einstaklinga. „Þetta sýnir vel hvað það er mikilvægt að halda góðum tengslum við fólkið í landinu og þekkja það og hagsmuni þess. Og ekki bara rétt fyrir kosningar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert