Mikilvægt að ESB gangi vel

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. mbl.is/Ómar Óskarsson

Miklir hagsmunir eru fyrir Ísland að vel gangi hjá Evrópusambandinu jafnvel þó að Íslendingar standi áfram utan sambandsins. Þetta sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fyrrverandi menntamálaráðherra, í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni.

Þorgerður vísaði til þess að uggvænleg þróun væri víða í heiminum þar sem frjálslyndi og lýðræði ætti undir högg að sækja. Vísaði hún þar meðal annars til þjóðernisöfgaflokka í Evrópu og stuðnings við bandaríska forsetaframbjóðandann Donald Trump.

Kristján Kristjánsson þáttarstjórnandi spurði Þorgerði hvernig Viðreisn, sem Þorgerður gekk til liðs við nýverið, myndi svara því hvort flokkurinn vildi ganga í Evrópusambandið. Þorgerður sagði Viðreisn fyrst og fremst vilja að kosið væri um framhald málsins.

Þorgerður var einnig spurð um mögulegt ríkisstjórnarsamstarf eftir næstu þingkosningar og hugmyndir sem Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, hefur sett fram um umbótastjórn Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og fleiri.

Þorgerður útilokaði ekkert í þeim efnum en sagðist hins vegar ekki ætla að standa í myndun ríkisstjórnar fyrir kosningar. Einnig var rætt um prófkjör Sjálfstæðisflokksins og árangur kvenna í þeim og sagði hún slæmt gengi kvenna í prófkjörum flokksins ekki nýtt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert