Styður Sigmund Davíð sem formann

Gunnar Bragi Sveinsson.
Gunnar Bragi Sveinsson. mbl.is/Árni Sæberg

„Guðni Ágústsson hefði kannski átt að taka Halldór Ásgrímsson, Steingrím Hermannsson og fleiri sér til fyrirmyndar, að leyfa forystu flokksins að starfa í friði. Það hafa formenn yfirleitt gert. Hann er kominn út úr þessu öllu saman,“ segir Gunnar Bragi Sveinsson, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra í Fréttablaðinu í dag.

Gunnar Bragi verður í Föstudagsviðtali Fréttablaðsins síðar í vikunni og ræðir þar meðal annars stöðuna sem upp er komin innan flokksins. Um síðustu helgi tilkynnti Sigurður Ingi Jóhannsson, varaformaður Framsóknarflokksins og forsætisráðherra, að hann sæktist ekki eftir stjórnarsetu í flokknum ef engin breyting yrði á forystu hans. Það er önnur staða en var uppi fyrir skömmu þegar Sigurður sagðist styðja Sigmund og að ekki kæmi til greina að fara fram gegn formanninum. Nú er skorað á Sigurð innan Framsóknarflokksins að bjóða sig fram gegn formanninum.

Gunnar Bragi segist ekki munu styðja Sigurð Inga til að taka sæti formanns. „Ég hef sagt það við Sigurð Inga sjálfan að ég myndi ekki gera það. Ég tel að flokkurinn sé betur kominn undir stjórn Sigmundar Davíðs áfram.“

Gunnar Bragi er að velta fyrir sér varaformannsframboði komi sú staða upp. „Þessa dagana erum við að reyna að átta okkur á því hver ætlar að leiða flokkinn, og ég er sannfærður um að það er Sigmundur Davíð. Ég myndi gjarnan vilja að Sigurður Ingi yrði þar áfram en ef ekki, þá myndi ég hugsa um það. Þú spurðir mig beint þannig að ég er að reyna að svara þessu heiðarlega. Ég myndi velta þessu fyrir mér eins og margir aðrir,“ segir Gunnar Bragi í viðtali við Fréttablaðið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert